26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (2266)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Björn Sigfússon:

Út af ummælum háttv. framsm. minni hl., 2. þm. N.-Múl. (Jóh. J.), finn eg ástæðu til að gefa nokkrar skýringar. Hann kvartaði undan, að meiri hl. hefði ekki kallað erindreka hins Sameinaða á fund aftur og brá okkur jafnvel um vanrækslu í því efni. Þetta kemur úr hörðustu átt. Sjálfur hefir hann hvað eftir annað látið sig vanta á fundi nefndarinnar, og stundum tollað þar að eins fáar mínútur. Hann veit því eðlilega ekki, hvað gerst hefir, þegar hann var fjarverandi. Í því einu hefir hann sýnt áhuga, að koma fram sem dyggur talsmaður Sameinaða félagsins danska.

Það hefir áður verið tekið fram í deildinni, að nefndin kallaði erindreka þessa félags á fund sinn, en þar sem hann hafði engin betri boð að bjóða en áður lágu fyrir frá félaginu, var harla lítil ástæða að kalla hann aftur. Samt ætlaði eg að gera það í gær eftir tilmælum þessa háttv. þm. (Jóh. J.) kvöldið áður, en þar sem hinir nefndarmennirnir voru þá »uppteknir« af öðrum störfum, varð það ekki unt. Eg ritaði því upp þau atriði, er vér lögðum mesta áherzlu á, og sagði þm. að hann gæti fengið skriflegt svar mannsins; öðru vildi eg ekki treysta, þar sem mér var orðið ljóst, að okkur var hermt alt öðru vísi á eftir. Mér datt líka í hug að skárri boð kynni hann að bjóða, ef ekki væri gengið of mikið eftir honum, og hann fengi hugboð um, að ekki væri alt undir náð hans komið.

Nú þykist háttv. þm. (Jóh. J.) hafa svo ágætt tilboð, sem hann var að lesa upp nær því óheyranlega á fundinum. Hvers vegna duldi hann okkur þess fyrir fund? Nú er ekki hægt að dæma um það svona óþekt. Það er ósköp hægt, bæði fyrir háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. J.) og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) að glæsa þetta tilboð, sem þeir eru að pukra með sín á milli, en sennilegt þykir mér, að ekki sé þar alt gull sem glóir.

Háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) hneykslaðist á því, að meiri hl. hefði gert brt. án þess að spyrja minni hl. að! Það er spánný kenning, að þegar nefnd klofnar, megi meiri hl. ekkert gera nema í samráði við þann, sem á móti er!

Annars mótmæli eg fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar öllum ákúrum og rangfærslum minni hl. Þeirra alúðarleysi verður ekki betra, þó þeir ámæli öðrum.

Hvernig sem mál þetta fer, hefir meiri hl. ekki unnið fyrir gýg, ef hann hefir með því að koma fram með frv. um málið skotið hinu volduga danska félagi skelk í bringu, knúð fram betra tilboð og gert það liðlegra en áður. Verði frumv. felt, er hætt við það stirðni upp aftur.

Að svo stöddu tel eg alveg rangt að samþykkja hina rökstuddu dagskrá. Væri það gert, er ekki hægt að nota frumv. fyrir keyri lengur.