26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Bjarni Jónsson:

Eg vil geta þess, að eg skil ekki hvers vegna við eigum að gera okkur ánægða með hvert það tilboð, sem fram kemur, ef það einungis er betra en þau tilboð, sem vér höfum áður orðið að sætta oss við.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) talaði um, að stjórnin ætti að útvega sér skýrslur og önnur hjálparmeðul fyrir næsta þing, en lítið geri eg úr því og hygg að málið kæmi engu betur undirbúið fyrir næsta þing fyrir þessu.

Það er ekki annað en spádómur, að skipin verði tóm milli Hamborgar og Íslands; það eru einmitt miklar líkur til, að nægar vörur verði að flytja á þeirri leið. En þegar krókurinn er farinn til Kaupmannahafnar, þá er ekki hægt að vita, hve mikið kemur frá Þýzkalandi, þótt bæði mér og öðrum sé það fullljóst, að þaðan koma miklar vörur.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) gat þess, að vér þyrftum ekki á kælirúmi að halda nema einu sinni á hausti, en slík ummæli lýsa ekki mikilli trú á hagsýni landsmanna, þar sem þó má gera ráð fyrir, að þeim sé það fullljóst að betra sé að flytja út kjötið oftar en einu sinni á ári; þeir hafa bæði feita sauði og naut, svo að þeim mundi henta stórum betur að geta flutt kjötið oftar.

Sami háttv. þm. (Sk.Th.) sagði einnig, um fiskmarkaðinn, að hann væri að fullu bættur með botnvörpungunum. (Skúli Thoroddsen: Það sagði eg ekki, en eg sagði, að þá væri bót fengin). Það er heldur ekki rétt, að með þeim sé bót fengin, því að botnvörpungarnir sjálfir auka einmitt þörfina á kælirúmum; þeim kæmi sjálfum mjög vel að geta verið að veiðum sínum og þurfa ekki að eyða tíma til milliflutninga, þeim hentaði vel, að eitthvert skip væri jafnan reiðubúið til að taka við fiskinum og flytja hann á markað fyrir þá.

Þetta er því meðal margs annars til þess að mæla með fyrirtækinu, en als ekki á móti því.

Ef nú litið er á kröfur landsmanna í þessu efni, þá mundu þær helzt fara í þá átt, að skip yrðu látin ganga inn á hvern vog og vík, en því mundi þingið trauðla sinna. Eg veit að minsta kosti svo mikið, að það þing, sem nú stendur yfir það herrans ár 1909, hefir ekki látið að óskum landsmanna um símalínur — þetta þing, sem alt ætlar að skera niður.

Svipaðar mundu verða undirtektir þess, ef skip ættu nú að fara að ganga inn á hvern vog og vík. Hitt lægi nær, að láta smábáta ganga með ströndum fram, en stærri skip landa á milli.

Eg fæ ekki skilið, hvers vegna nú er verið að koma fram með rökstudda dagskrá; vænti þess líka, að þeir þm. samþykki hana ekki, sem áður kunna að hafa verið því hlyntir, einkanlega þar sem t. d. 1. þm. Eyf. (H. H.) hefir nú alveg fallist á ástæður mínar. Auðvitað vissi eg það, að þær voru fullgildar, en við hinu bjóst eg sízt, að hinn háttv. þm. mundi fara að bera það undir forseta, hvort eg hefði ekki farið með rétt mál — það mátti mér koma á óvart.

Vil eg því vænta þess, að aðrir háttv. þm. láti nú sannfærast á líka leið.