08.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

10. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Eiríkur Briem:

Eg vil taka undir með háttv. 3. kgk. þm., að það er mjög æskilegt, sem frv. fer fram á, og frv. í sjálfu sér mjög þýðingarmikið fyrir sjávarútveginn.

En viðvíkjandi breyt.till. nefndarinnar er það að segja, að breyt.till. við 1. gr., hvort sjálfsábyrgð á að vera á 30%, eins og frv. fer fram á, eða 25%, eins og nefndin álítur, getur verið álitamál. Að trygging sé fyrir 75%, er ekki varhugavert, ef ekki þyrfti að óttast, að virðingar væru óáreiðanlegar.

2. breyt.till. er alveg sjálfsögð, eins og framsögum. sagði, og eg skil ekki, hvernig ákvæði frv. eru komin inn. En eg vildi að eins skjóta því til nefndarinnar, hvort ekki væri rétt að bæta við innan klofa í 4. gr. frv. á eftir »hagsmunatrygging«: »afla, veiðarfærum og útbúnaði«, til þess að hún væri í fullu samræmi við 1. gr. c. Eg held það væri betra, og mætti gera það við 3. umr.

En eg stóð upp aðallega vegna 3. breyt.till. Eg er samdóma nefndinni um, að 6. gr. a. frv. geti ekki staðið eins og hún er. Það hlýtur að vera í ógáti, að þar stendur 2% í stað 500 kr. En eg álít það varhugavert, eins og nefndin gerir, að fella síðustu setning liðsins alveg burtu. Eins og framsögum. tók fram, verður alt af að vera dálítil upphæð, sem ekki er bætt, en þar er rétt að það gangi eitt yfir alla, og þá verður líka að draga eitthvað frá þeim upphæðum, sem annars eru bættar, og það hefir mikla þýðingu, ef maður verður fyrir skaða; það getur annars verið til hagsmuna fyrir hann, að láta skaðann verða meiri en vera þyrfti, til þess að skaðinn verði svo mikill, að hann verði bættur. Á síðasta þingi voru samþykt lög um brunabótasjóð, og þar var til tekið, að ef skaðinn væri ekki meira en 30 kr., þá skyldi hann ekki bættur, en ef bruninn væri meiri, þá skyldi draga frá 30 kr., því að annars kæmi fram misrétti. því sama máli er að gegna hér. Það er freisting fyrir mann, sem bíður 400 kr. skaða, því þá fær hann ekkert, en ef skaðinn er 500 kr., þá er hann endurgoldinn. Það er freisting, að láta skaðann verða meiri. Það er því mín meining, að 500 kr. væri felt burt, en í þess stað sett minni upphæð, t. d. 300 kr. Vil eg þess vegna skjóta því til nefndarinnar, að breyta þessu í samræmi við það, sem eg hefi haldið fram hér. En eg hefi ekki sjálfur komið með breyt.tillögu. Það gæti nefnd þá við 3. umr. málsins.