26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (2279)

76. mál, farmgjald

Framsögumaður (Björn Kristjánsson):

Munurinn er sannarlega ekki stór. Á þeim vörum, sem vigtaðar eru, kemur þetta niður alveg eins og faktúrutollur. Vitanlega ekki eins hægt að segja um þær vörur, sem ekki eru vigtaðar. Annars kemur þetta gjald mjög jafnt niður á vigtuðum vörum.

Háttv. þm. (P. J.) gat þess, að hann vildi helzt ekkert verzlunargjald yfir höfuð, allra sízt á nauðsynjavörum. En mér fyrir mitt leyti er algerlega sama, hvort eg borga 10 aura af mjölsekk eða einhverri annari nauðsynjavöru, því þær vörur eru svo margar, sem eiga það nafn skilið.

Menn verða að leggja tollana á, með það tvent fyrir augum, að auka með þeim hag landssjóðs, og eins hins, að þeir komi sem jafnast niður.