21.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Framsögumaður (Magnús Blöndahl):

Nefnd sú, sem háttv. deild kaus til að íhuga peningavandræðin í landinu hefir haldið allmarga fundi og rætt og íhugað það mál allítarlega. Nefndinni var það ljóst, að þetta væri mikið vandamál. Nefndin sá strax glögt, að eitthvað þyrfti úr að ráða nú þegar og að eitt af því helzta og fyrsta, er gera þyrfti væri að bæta hag og auka starfsfé bankanna, en jafnframt yrði að leggja áherzlu á að auka framleiðsluna í landinu sem mest og bezt, eins og líka landsmenn annars vegar yrðu að gæta mesta sparnaðar og kostur væri á. Eg skal geta þess í sambandi við þetta frumv., að til er ætlast, að annað frumv. líkt þessu komi frá hinni sömu nefnd viðvíkjandi landsbankanum. Það er undirbúið og örstutt, þangað til það kemur fram. — Þegar Hlutafélagsbankinn var stofnaður, greindi menn mjög á um hversu nauðsynleg og gagnleg sú stofnun mundi verða. Margir spáðu góðu þar um, en aftur aðrir hinu gagnstæða. Þess utan óttuðust margir, að þar sem um útlent fé og útlenda stofnun væri að ræða, gæti það orðið viðsjárvert og jafnvel hættulegt fjárhagslegu sjálfstæði landsmanna; margir litu svo á, að þar sem hér væri að ræða um útlent fé eingöngu eða mestmegnis, þá gæti hæglega svo farið, að bankinn gæti gripið landsmenn þeim heljartökum, sem ekki væri gott úr að losna, ef ekki væri viðhöfð því meiri varkárni í alla staði. Það var eins og mætti lesa milli línanna í umræðum manna á móti málinu, að landsmenn mundu verða eða gætu orðið nokkurs konar viljalaus verkfæri, bundnir órjúfandi skuldahafti í höndum þessa útlenda banka, er lama mundi alla stjórnlega og fjárhagslega framþróun til frelsis og framfara í landinu.

Meðmælendur bankans voru aftur bjartsýnni og mæltu með stofnun bankans og bjuggust við, að gott mundi af leiða, ef skynsamlega væri að farið. Peningavandræðin væru svo mikil, að það þyldi enga bið að koma bankanum á fót; úr þeirri knýjandi nauðsyn yrði að bæta sem fyrst. Og þeir voru heldur ekki hræddir við að fá útlent fé inn í landið, vitandi vel, að ef alt hér á landi ætti ekki að fara í kalda kol, þá yrði að sækja féð til útlanda, þar sem óhugsandi væri, að landið eða landsmenn gætu lagt það fram sjálfir. Líti maður á 1. grein Hlutafélagsbankalaganna, sér maður strax, að jafnvel þá er þó gengið út frá því sem mögulegu, að einstakir menn og félög, já meira að segja landssjóður geti gerst hluthafi í Íslands banka. Svo víðan sjóndeildarhring og svo mikla trú á fyrirtækið og landið höfðu nokkrir menn á þeim tíma. Það hefði á þeim tíma kannske mátt segja, að til hefði verið önnur leið, til að greiða fram úr peningavandræðunum, leið, sem hefir flogið mér í hug, og sem eg minnist ekki að hafa heyrt aðra minnast á opinberlega. Þessi leið var sú, sem Norðmenn fóru, þegar þeir stofnuðu sinn þjóðbanka. Annars skal eg ekki fara langt út í það mál hér, með því það liggur ekki fyrir, og eg býst við, að flestum þingmönnum sé það mál kunnugt.

Þegar Íslands banka var komið á fót, voru menn sammála um, að nauðsyn bæri til að tryggja stjórn landsins sem ríflegust yfirráð yfir bankanum. Þetta sýnir sig meðal annars á því, að í bankaráðinu eru þrír fulltrúar kosnir af þinginu og ráðherra Íslands formaður þess. Ákvæði þetta er gott og heppilegt og því má ekki lögunum um kenna, ef þeir íslenzku bankaráðsmenn hafa ekki notað þetta vald, er þeim er veitt, fyllilega, eða að minsta kosti hefðu máske getað beitt því frekara en þeir hafa gert. En þeir hafa ef til vill ekki fundið neina sérstaka ástæðu til þess.

Eg skal í sambandi við þetta drepa á, að full ástæða væri máske til að bætt yrði við einum manni af þingsins hálfu í bankaráðið. Þetta er einkar sanngjarnt, þegar þess er gáð, að hlutafé bankans hefir verið aukið að miklum mun frá því upphaflega. Það gæti líka verið heppilegt, að ráðherra Íslands í vissum tilfellum þyrfti ekki að greiða atkv. í bankaráðinu.

Ef maður lítur nú á og hyggur vandlega að, hvernig þessi bankastofnun hefir reynst, þá má yfirleitt segja, að fremur hafi rætst skoðun þeirra manna, er voru bjartsýnir í málinu, og er það í alla staði gleðilegt.

Að sjálfsögðu má ef til vill nokkuð um þetta segja bæði með og móti, en óréttlátt væri að saka þessa stofnun um það, þótt einhverjum kynni að finnast í einhverju ábótavant með stjórn bankans eða framkvæmdir. — Ef eitthvað mætti að bankanum finna, þá tel eg þinginu skyldara að fá bætt úr göllunum, heldur en amast við stofnuninni.

Ef litið er yfir reikninga þessa banka, þá virðist hann standa mjög vel og hefir gefið hluthöfum all-góðan arð. Það hefir samt sem áður alt af vakað fyrir mönnum og hefir oft verið fundið bankanum til foráttu, er minst hefir verið á hann, að hlutaféð væri útlent og að landsstjórnin eigi hefði verulegt tak á stofnuninni — ef eg má brúka það orð —; með fram af þessari ástæðu og þeim er eg gat um í byrjun ræðu minnar er þetta frv. hér fram komið. — Peningamálanefndin hefir öll verið sammála um það, að frumv. þetta sé í alla staði réttmætt, hættulítið og nauðsynlegt, og vill því nota það tækifæri, er landinu nú býðst til þess að geta — á fremur haganlegan hátt — ráðið sem mestu um rekstur og hag þessarar stofnunar í framtíðinni.

Við þessa fyrstu umræðu málsins, skal eg ekki fara út í hin einstöku atriði frumvarpsins, en vil þó geta þess, að 5. grein þess væri máske réttara, að orða nokkuð skýrar, og sama má — ef til vill — segja um 6. gr., og býst eg við, að það verði athugað til 2. umr.

Skal eg svo leyfa mér fyrir hönd peningamála-nefndarinnar, að æskja þess, að menn lofi frumv. þessu, að ganga gegnum hina háttv. deild.