24.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (2299)

75. mál, bygging jarða og ábúð

Framsögumaður (Pétur Jónsson):

Eg býst við því, að það þyki þýðingarlaust, að nefndin fari nú loks að leggja þetta mál fyrir þingið, þar sem svo mjög er áliðið þingtímans, og mörg mál og stór eru eftir enn þá órædd. Hér við bætist, að þótt eg ekki hafi sjálfur tekið mikinn þátt í undanfarandi umræðum, þá hefi eg þó orðið að fylgjast með, en það hefir orðið til þess, að eg hefi ekki getað undirbúið mig til þess að ræða mál þetta eða skýra eins vel og því er samboðið. En málið er lagt fram einungis til athugunar fyrir þingið, en eigi til fullra úrslita. — Í fyrstu grein frumv. er breyting á þeim ákvæðum í lögum um ábúð og úttekt jarða frá 1884, sem ákveða leiguliða, þá er hann fer frá jörð, rétt á því, að fá endurgjald fyrir jarðabætur þær, sem hann hefir unnið á jörðinni síðustu 10 árin. — Það virðist ekki vera neinum efa undirorpið, að leiguliða beri endurgjald fyrir þau verk, sem hann gerir jörðinni til góða, um fram það, sem áskilið er í byggingarskilmálum hans, ef hann nýtur verka sinna, að eins stuttan tíma. Nú mun þá öllum vera ljóst, að hversu æskilegt sem þetta er, þá er sá hængur á, að erfitt verður að fá vissu fyrir því, hvort jörðin hefir hækkað í leiguverði við jarðabætur þær, sem gerðar hafa verið, og þess vegna hefir svo lítill árangur eða réttarbót orðið að ákvæðum núgildandi ábúðarlaga í þessum efnum. Nefndinni fanst því nauðsynlegt, að leiguliða sé gefin betri úrlausn til þess að hvetja hann til að gera jarðabætur, og leggur því til, að borgun fyrir jarðabætur miðist nokkuð við kostnað til þeirra; því mörg atvik, sem leiguliða eru óviðkomandi, geta stuðlað að því, að jörð eigi vaxi í leiguverði, að sama skapi, sem hún batnar. Eftir skýrslum þeim, sem lágu fyrir landbúnaðarnefndinni, þá eru flestar einstakra manna jarðir bygðar til að eins fárra ára, eða jafnvel að eins til eins árs. — Nú er orðið algengt, að leiguliðar gera jarðabætur meira og minna eftir efnum og ástæðum, hvort sem þeir búa á jörðum einstakra manna eða þjóðjörðum. Það er orðin tízka og menn fylgjast gjarnan með tízkunni. Er ilt til þess að vita, að menn, sem hafa stutta ábúð og óvissa jafnvel, skuli ekki geta fengið sanngjarnlega borgun fyrir verk sin, og eg verð að mæla með því, að þingið setji eitthvað undir þennan leka.

Þá er í 2. 3. og 4. gr. ákvæði um það, að leiguliði, sem byggir nauðsynleg hús á jörð um fram það, sem áður var eða breytir húsum til stórbóta fái styrk til þess frá landsdrotni sínum. Hér er haft til fyrirmyndar styrkur sá, sem landssjóður veitir til bygginga á umboðsjörðum. Eru 2 reglur um það: önnur sú, sem gerð var með fjárlagaákvæði nokkur ár, en nú gildir eigi lengur, að veita úr umboðssjóði alt að ? til húsabóta á landssjóðsjörðum án þess afgjald jarðarinnar hækki fyr en við ábúendaskifti. — Hin reglan eftir ráðherrabréfi frá 1880 er sú, að leiguliða sé veittir ¾ af byggingarkostnaðinum gegn því, að afgjaldið hækki þegar um 1 af hundraði hverju, sem styrkurinn nam. — Auðvitað verða þau hús, sem bygð eru að vera sérstaklega nauðsynleg fyrir jörðina, þótt um fram væri þau hús, sem áður fylgdu jörðinni. Og það er alkunnugt, að fáum jörðum fylgir meira en helmingur af þeim húsum, sem alveg eru óhjákvæmileg fyrir sæmilega ábúð jarðarinnar, eftir tímans kröfum. — Hinn helminginn verða leiguliðar að eiga og láta ganga frá einum ábúanda til annars kaupum og sölum, og kemur það ætíð hart niður á góðum leiguliðum, sem bæta um húsin, en hinir græða. Á þessu er því þörf til umbóta. — Þriðja breytingin er í þá átt að leiguliða gefist kostur á því að leysa til sín innstæðukúgildi jarða. Margir líta svo á það, að þyngsli sé að því að búa undir kúgildum, og búskapur á kúgilda-margri jörð verði erfiður — einkum nú, þegar fólksekla og dýr vinna knýi fjölda manna til þess að láta ærnar ganga með dilkum, og fara þannig á mis við sauðfjármálnytju, en hún var áður fyrri undirstaða kúgildaleignanna. Hins vegar sýndist nefndinni ráðlegt, að leiguliði innleysti kúgildin með jarðabótum eða nauðsynlegum húsum, sem hann bygði á jörðinni, svo að fullgild innstæða jörðinni til handa komi í staðinn, jarðarverðið legðist við að fullu og afgjald. Kúgildaleigan breyttist þannig í landsskuld. — Þetta er nauðsynlegt til þess meðal annars, að jarðir, sem veðsettar eru eigi tapi veðgildi. Þar á móti vildi nefndin eigi neyða landsdrottinn til að taka hús eða jarðabætur á móti kúgildum, heldur væri honum þó heimilt að taka þau til sín.

Yfirleitt miðar frumv. til þess að bæta hag leiguliða, en þó reynt, að ganga ekki of nærri landsdrotni á nokkurn hátt.