26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (2301)

75. mál, bygging jarða og ábúð

Stefán Stefánsson:

Háttv. framsm. (P. J.) gat þess við 1. umræðu þessa máls, að hann óskaði, að sem flestir þingmenn léti skoðun sína í ljósi á ákvæðum þessa frumv. Bæði þessa vegna og svo af því, að eg hefi unnið að frumv. í landbúnaðarnefndinni, þá finst mér ástæða til þess að skýra frá minni skoðun með örfáum orðum.

Mál þetta álít eg, að hafi verið brýn nauðsyn að taka til íhugunar og meðferðar, því það munu allir játa, að eins og landbúnaðar-löggjöfin er nú og hefir verið um langa tíð, þá er ekki við slíkt unandi, enda er óánægjan mjög almenn, sem er eðlilegt, þar sem misrétti ábúðarlaganna snertir allflesta bændur þessa lands, að meira eða minna leyti. En hér er um svo stóran lagabálk að ræða, að okkur nefndarmönnum hefir ekki veitst tími til þess, að koma fram með breytingar á öðrum ákvæðum laganna en þeim, sem að okkar áliti eru allra bagalegust leiguliða-ábúðinni, og standa sjáanlega í vegi fyrir eðlilegum framförum í húsagerð, jarðabótum og efnalegu sjálfstæði leiguliða, og á eg einkum við kúgilda-kvöðina, sem á sumum jörðum er rétt óþolandi.

Frumv. þetta er því fram komið til þess, að reyna til að laga misfellur þessar.

Skal eg fyrst nefna ákvæðið um, að sanngjarnt endurgjald komi fyrir hverja þá jarðabót, sem leiguliði vinnur á sinn kostnað. Skulu jarðabætur þessar metnar í dagsverkum, sem venja er til, og er þá endurgjaldið til leiguliða miðað við það, hve lengi hann hefir notið jarðabótarinnar. Þetta álít eg, að hljóti að leiða til þess, að leiguliðar fái meiri hvöt og áhuga til þess að bæta jarðirnar, þegar vissa er fyrir sanngjörnu endurgjaldi, þegar þeir fara frá jörðinni, í staðinn fyrir eins og nú á sér stað, að þetta gjald á að miðast við þá hækkun á afgjaldi jarðarinnar, er hæfileg þykir í tilliti til jarðabótanna; með þessari tilhögun er það venjulegast, að leiguliði fær ekkert endurgreitt af sínum jarðabótakostnaði. — Þá er ákvæðið um endurbót á jarðarhúsum og ný-byggingar, eða heimild leiguliða til að gera þær húsabætur á leigujörð sinni, sem að áliti úttektarmanna eru nauðsynlegar fyrir ábúð jarðarinnar, og réttur sá, sem honum er veittur til þess að krefjast af landsdrotni, að hann beri þrjá fjórðu hluta kostnaðar af öllu aðkeyptu efni. Þetta er mjög til bóta og eg hygg, að reynslan verði sú, að einmitt þetta ákvæði stuðli mjög að því að auka sjálfsábúð í landinu, því þegar landsdrottinn sér það, að leiguliði getur krafist, ef til vill all-mikillar fjárupphæðar til húsagerðar, þá fer það að verða vafamál fyrir hann, hvort nokkur hagur er að eigninni, sjái hann ekki fulla vissu fyrir því, að eftirgjaldið megi hækka, sem því nemur.

Þá er enn ein aðalbreyting, sem eg vildi minnast á, sem er sú, að leiguliðum skuli heimilt að innleysa kúgildi á leigujörð sinni gegn því, að leggja jörðinni til aðra eign jafn góða, annaðhvort í húsum eða jarðabótum. Nú er því svo varið um margar hinar smærri leigujarðir, að þær fleyta litlu meira af fénaði, en kúgildum þeim, sem þeim fylgja; þetta verður oft til þess, að viðtakendur jarða verða að farga af sínum eigin fénaði og bústofni, þegar þeir byrja ábúð á kúgilda-þungum jörðum, því ekki má þeim fénaði fækka, hvað sem jarðnæðinu líður að öðru leyti, eða hvernig sem lætur í ári. Þetta er eins og allir sjá ill-þolandi, en sérstaklega er það tilfinnanlegt fyrir hann sem fráfaranda jarðarinnar, því þá verður hann að skilja eftir á jörðinni mest allan fénaðinn, og ganga frá henni næstum »slyppur og snauður«. Þetta þarf að sjálfsögðu að breytast sem fyrst, en þá er aðal-erfiðleikinn á því, að um leið sé þó séð svo um, að veðhæfi eða veðgildi jarða rýrni ekki, því er verðgildi kúgildanna nemur, og árlegu eftirgjaldi. Við þessu höfum vér nefndarmenn viljað sjá með því, að gera leiguliðum þá skylt að leggja andvirði kúgildanna í jarða- eða húsabætur, sem svöruðu fullkomlega til þeirrar upphæðar — að mati úttektarmanna — sem kúgildunum næmi og árlegu eftirgjaldi þeirra. — Kjósi landsdrottinn heldur að taka kúgildi af jörðu til sin, en taka aðrar eignir — húsa- eða jarðabætur — á móti, er honum það heimilt, þegar hann vill. Þá fellur auðvitað kúgildaleigan niður, en í stað þess hækkar þá landsskuldin um þann mismun, sem metinn verður á kúgilda-leigunni og venjulegri peningarentu af verði kúgildanna. Um hækkun landskuldarinnar koma hlutaðeigendur sér saman um eða óvilhallir dómkvaddir menn meta hana.

Þessa breytingu hefi eg lagt sérstaka áherzlu á í nefndinni, bæði af því, að eg lít svo á, að kúgildin séu all-oft verulegt niðurdrep fyrir leiguliðaábúðina, og auk þess gersamlega óeðlilegt, að slík skyldu-kvöð fylgi jörðum.

Annars var það eigi ætlun okkar nefndarmanna, að frumv. þetta yrði að lögum á þessu þingi, því það er okkur full-ljóst, að hér er um allathugaverðar breytingar að ræða, en jafnframt nauðsynlegt, að eitthvað sé aðgert í þá átt að rétta hlut leiguliða, og því höfum við leyft okkur að koma fram með ákveðnar tillögur í frumvarpsformi til þess að marka sem skýrast stefnu okkar, og með það fyrir augum, að hin einstöku atriði frumv. verði tekin til íhugunar fyrir næsta þing.

Eins og eg hefi þá stuttlega drepið á, þá tel eg þessar breytingar til verulegra bóta á okkar landbúnaðar-löggjöf, og vildi því óska, að frumvarpið fengi að ganga til háttv. efri deildar, svo séð yrði, hvernig sú deild lítur á málið.