06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (2305)

113. mál, skipun prestakalla

Flutningsmaður (Sigurður Sigurðsson):

Eg er þakklátur h. þm. S.-Þing. (P. J.) að hann ann mér þess sannmælis, að eg vilji spara fé landsins sem mest, en hins vegar er eg ekki svo mikill sparnaðarmaður, að eg vilji stuðla að misrétti í landinu, eins og hér á sér stað. Úr þessu er reynt að bæta með frumv. því, sem hér er til umræðu.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) taldi óheppilegt að breyta strax þeirri skipun, er gerð var á síðasta þingi, að því er prestaköllin snertir. En reynslan hefir þegar sýnt, að þetta skipulag er víða stórgallað og þarf því bráðrar breytingar við.

Kirkjumálanefndin og síðasta alþingi gekk of langt í því að sameina og fækka prestaköllunum. Landið er strjálbygt og samgöngur ógreiðar, einkum að vetrinum. Fyrir því varð og verður að fara varlega, þegar um sameining prestakalla er að ræða.

Frumvarpið hefir ekki, að neinum verulegum mun, ný, aukin útgjöld fyrir landssjóð, að því er Gaulverjabæjarprestakall snertir. Frá því sjónarmiði er því engin minsta ástæða til að vera á móti því, að þetta gamla prestakall sé gert á ný að sérstöku prestakalli. Að annarsstaðar séu engu minni ástæður til að fjölga prestaköllum, getur verið rétt. En mér vitanlega liggja ekki fyrir neinar óskir þar að lútandi. Að minsta kosti hefi eg ekki orðið var við að komið hafi fram kröfur eða bænir um fjölgun presta eða prestakalla úr kjördæmi háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), enda hafa þeir ekki haft orð á sér fyrir að vera kirkjumenn eða prestlega sinnaðir. Annars hygg eg að svo fari í þessum stóru og víðáttumiklu prestaköllum, að presturinn verði skoðaður að eins sem sjaldséður gestur, en þá er starf þeirra ekki orðið nema svipur hjá sjón. Auðvitað geta prestarnir komið við og við og prédikað fyrir lýðnum, en þess ber að gæta, að einhver sterkasti liðurinn í starfi prestsins er hans persónulega umgengni við sóknarfólkið og um leið þau áhrif, er hann með kristilegu og kennimannlegu framferði hefir á söfnuðinn, sem honum er trúað fyrir. En þessi áhrif getur presturinn ekki haft, þegar hann — eins og eftir þessum nýju lögum — verður að eins gestur, sem einungis sést skyndilega nokkrum sinnum á ári. Það er þá alveg eins gott að afnema alla presta og kirkjur. Hefði skilnaður ríkis og kirkju verið á dagskrá, skyldi eg hafa stutt það mál og greitt því atkvæði.