06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

113. mál, skipun prestakalla

Sigurður Gunnarsson:

Mér virðist þeir háttv. 2 þm., sem andmælt hafa þessu frumv., eingöngu hafa litið á það frá einni hlið, kostnaðarhliðinni. Þetta frumv. mundi ekki hafa verið flutt, ef þess hefði ekki sýnst brýn þörf, og að brýn þörf sé breytinga, það get eg staðhæft, að því er kemur til prestakalls þess í Snæfellsnessprófastsdæmi, er hér ræðir um. Það er auðvitað, að það er bæði rétt og skylt að spara allan óþarfan kostnað, en þar sem um þörf er að ræða, er alt öðru máli að gegna.

Þessir 2 háttv. þm. hafa, sem sagt, litið á málið frá einni hlið. En það er til önnur hlið á þessu máli, það er sú hlið, sem snýr að söfnuðum landsins. Auðvitað veldur það prestunum mikils kostnaðarauka og margvíslegs óhagræðis að verða að gegna afarvíðlendum prestaköllum og torsóttum yfirferðar. En eigi ber síður á hitt að líta, að söfnuðunum er með þessum hóflausu samsteypum gert nálega ókleyft að hafa prestanna not, og verða þó söfnuðirnir að gjalda jafnþung gjöld eftir sem áður. Eða hvað segja menn um það, að steypa saman tveim prestaköllum, sem leiðin um er um 20 kl.st. lestagangur af enda og á, eins og er frá Sleggjubeinsá, yzt í Staðastaðarprestakalli, að Svínavatni í Hnappadal; á þessu svæði er bygðin milli fjalls og fjöru þrísett víða og enn meira syðst í prestakallinu. Auk þess eru þar víða ár á leiðinni, illar yfirferðar, einkum á vetrum. Ókunnugum skilst enn betur, hversu óhæfileg þessi samsteypa er, þegar þess er gætt, að gagnvart þessu prestakalli liggja, norðan megin fjallgarðsins, Breiðabólsstaðarprestakall, Helgafellsprestakall, Setbergsprestakall og nokkur hluti Ólafsvíkurprestakalls. Eg vona, að háttv. þingdeildarmenn sjái af þessu, hve óréttmæt þessi samsteypa er.

Eg sé ekki að nein rök hafi komið fram fyrir því, að með þessu frv. sé kipt burt grundvellinum undan lögunum frá 1907 um skipun prestakalla. Ekki get eg heldur fallist á, að þá hafi verið komist að svo hárréttri niðurstöðu, að henni megi ekki og ætti ekki að breyta. Þvert á móti álít eg, að kirkjumálalöggjöfinni hafi verið flaustrað af, og prestakallaskipunin ranglega einskorðuð eingöngu við það, að landssjóður þyrfti ekkert til að leggja, þó að eg á hinn bóginn neiti því ekki, að þá hafi að nokkru verið bætt úr kjörum prestanna, sérstaklega í hinum óerfiðari prestaköllum.

Því hefir verið haldið fram, að lögin séu svo ung, að þau séu varla komin til framkvæmda; eg sé enga nauðsyn til að bíða eftir því, að hin nýja prestakallaskipun komist í framkvæmd. Betra að kippa verstu misfellunum í lag áður en að því rekur.

Það er fleira á að líta í þessu máli en launabætur prestanna, þó að það sé raunar mín skoðun, að prestar í víðlendum prestaköllum leggi miklu meir í kostnað en launabótunum nemur, ef þeir reyna að gegna embættum sínum með alúð. En það, sem eg legg áherzlu á er það, að söfnuðirnir eiga heimtingu á að hafa prestanna full not, meðan annars nokkur prestur er til í landinu. Að öðrum kosti er miklu betra að skilja að ríki og kirkju. En ekki sýnist mér sæma að smámurka úr henni lífið með óheppilegum og ranglátum samsteypum.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) talaði um kostnaðaraukann, sem leiða mundi af frumv. þessu, ef það næði fram að ganga, og reiknaði út, að hann mundi nema 9 þús. kr. og taldi það ársvexti af 200 þús. kr. Látum svo vera; það er ósköp hægt að koma með ægilegar tölur. Tökum til dæmis tvo embættismenn í Reykjavik, sem til samans hafa 9 þús. kr. laun. Eru það ekki líka vextir af 200 þús. kr.? En það er svo sem ekki verið að halda þessum útreikningi á lofti, þegar um hálaunaða embættismenn er að ræða.

Eg vona, að háttv. deild vísi málinu að minsta kosti til 2. umr. og selji ef til vill nefnd í það. En eg vona, að deildina hendi aldrei sú fásinna að fella frumv. Það má vel vera, að ástæður séu ekki jafnar um öll prestaköllin, er hér ræðir um, eg er þar ekki kunnugur. En hitt vona eg, að deildin verði svo sanngjörn að hugleiða málið sem bezt.