06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

113. mál, skipun prestakalla

Jón Ólafsson:

Eg er einn í þeirra tölu, er feginn vildi sjá frumv. þetta falla undir eins hér í deildinni. Gangi þetta fram, mun vera von á fleirum slíkum. T. d. get eg bent á, að við þm. Sunnmýlinga höfum eitt eða tvö frumv. af sama tægi,

Háttv. þm. Snæf. (S. G.) talaði mjög um erfiðleika á prestakalli innan Stapa í Snæfellsnessýslu. Vel þekki eg það, að þar eru miklar vegalengdir. En háttv. þm. Snæf. (S. G.) þekkir víst ekki síður en eg, prestakall eitt í Suður-Múlasýslu, þar sem um öllu meiri örðugleika er að ræða. Eg veit að háttv. þm. (S. G.) hefir ferðast með mér um mest alt það prestakall, þótt langt sé að vísu síðan, og hlýtur að vita, að enginn fer það á dag, þurfi hann að fara frá yzta bæ á Berufjarðarströnd inn fyrir Berufjörð og svo út strönd til Djúpavogs, inn fyrir Hamarsfjörð, út að sunnan og inn fyrir Álftafjörð suður að Lónsheiði. Eg gæti nefnt annað dæmi, þar sem vegalengdin er það sem menn segja fylsta dagleið að sumri til. Á norðurenda þess prestakalls (Eydala-prestakalls) er bær (Hafnarnes við Fáskrúðsfjörð), sem hefir um 70 íbúa. Þaðan liggur leið út fyrir fjall um Gvöndarnes, og, ef ófært er á sjó, þá inn fyrir Stöðvarfjörð og út fyrir fjall um Hvalnesskriður og langan veg inn í Breiðdal að Eydölum.— Stöðfirðingar vilja því fá, að sveit sín haldist áfram sérstakt prestakall. Ómögulegt væri að neita þeim um það, svo framarlega sem nokkuð er hróflað við breytingum á skipulagi því, sem nú er.

Við fengum lög 1880 um skipun prestakalla; þar gekk alt út á að bæta kjör prestanna, eins og ávalt hefir verið, er um slík mál hefir verið að ræða. Þá er steypt saman »brauðum« og ekki verið að hugsa um ástæður og óskir safnaðanna. Langt í frá. En þegar slík lög eru nýgengin í gildi, vilja menn jafnharðan rifta þeim aftur. En þá biðja prestar um uppbætur úr landssjóði. Lögunum 1880 var næstu ár hringlað öllum upp aftur með um 20 nýjum lögum. Og nú á að byrja sama hringlið með nýju prestakallalögin. Það sem prestarnir leggja alla áherzlu á, er það, að launin hækki.

Það hefir verið minst á kirkjulífið, og hve dauft það sé. Ekki skal eg rengja það. En sé eitt öðru fremur, er stuðlar að því að drepa kirkjulífið, mun það einmitt vera það, að prestum er dembt á landssjóð og þannig slitin að miklu þau sameigins hagnaðarbönd, er tengja söfnuði og presta. En landssjóður ætti ekki að borga prestum einn einasta eyri. Það á að vera safnaðanna að annast um slíkt. Laun presta úr landssjóði eru spor til þess að binda enn fastar saman ríki og kirkju, sem einmitt ætti sundur að skilja. Eg vildi feginn sjá öll þau bönd höggvin, sem allra fyrst, sem tengja ríki og kirkju. Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) flytur þetta frv., hann sem þó ekki als fyrir löngu lýsti yfir því, að hann mundi óhikað greiða atkv. sitt á móti, að stofnuð yrði nokkur ný embætti. En nú er það enginn annar en hann, sem berst fyrir af kappi stofnun nýrra prestakalla, og þau að sjálfsögðu launuð úr landssjóði að meiru og minna leyti.