06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

113. mál, skipun prestakalla

Stefán Stefánsson:

Eg vil ekki auka á deiluna í þessu máli, að eins geta þess, að sá hluti þessa frumv., er snertir mitt kjördæmi, er framkominn eftir ósk þingmálafundar, er haldinn var að Möðruvöllum í Hörgárdal, fyrir þá þrjá hreppa kjördæmisins, er þetta snertir og er í fylsta samræmi við frv. það, er stjórnin lagði fyrir síðasta þing og milliþinganefndin í kirkjumálum hafði eindregið lagt til.

Á síðasta þingi lét eg þess getið, að þá breytingu á prestakallaskipuninni, er milliþinganefndin lagði til, væru viðkomandi söfnuðir í mínu kjördæmi als ekki óánægðir með, en hvað sem frekar yrði gert til brauðasamsteypu, mundi als ekki vel tekið. Þetta er nú komið fram, og hefi eg því leyft mér að flytja þessa breytingu, og vænti þess að hún komi mönnum hvorki á óvart, eða finnist hún að nokkru leyti óeðlileg eður ósanngjörn.

Skal eg að svo komnu máli ekki fjölyrða frekar um þennan lið frumv., en vona að þingið sjái, að hér er um eðlilega og réttmæta ósk safnaðanna að ræða.