06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

113. mál, skipun prestakalla

Jón Ólafsson:

Eg skal ekki fara langt út í einstök prestaköll. En eg er hræddur um, að vinur minn og frændi, háttv. þm. Snæf. (S. G.) sé farinn að gleyma leiðinni. Eg skal ábyrgjast það, að hann er aldrei svo vel ríðandi, að hann fari alt prestakallið, frá Berufjarðarströnd yzt og alt suður að Lónsheiði, á dag með kristilegri meðferð á hestum sínum, ef hann hefir ekki meira en 2 til reiðar. Á Snæfellsnesi hagar alt öðru vísi til; þar verða senn akbrautir og eru góðir vegir, en á þessari leið á Austfjörðum eru vegirnir víða svo slæmir, að þeir munu óvíða verri vera á þessu landi. Úr því að háttv. þm. (S. G.) vill fara að bera saman prestaköll, hvað þau sé erfið umferðar, þá skal eg minna hann á eitt lítið prestakall, er nefnist Kirkjubæjarsókn í Norður-Múlasýslu; það tekur yfir Eiðaþinghá, Hjaltastaðaþinghá, Hróarstungu og svo Jökulsárhlíð, og það eru ekki neinar smásprænur, eins og á Snæfellsnesi, sem sá prestur verður að fara yfir, heldur stórvötn eins og Lagarfljót og Jökulsá á Dal, eitt stærsta og annað versta stórvatn landsins.

Háttv. sami þm. (S. G.) talaði um það, að hann væri hlyntur skilnaði ríkis og kirkju, en hélt þó, að eins og nú stæði mundi það bæta kirkjulífið að launa prestana af landssjóði. Mér er það óskiljanlegt, að það mundi ekki bæta kirkjulífið, að söfnuðirnir launuðu prestum sínum sjálfir. Staða prestanna er alt öðru vísi en þeirra manna, sem reka laga og landsréttar — enda er það áreiðanlegt, að þar sem prestunum er ekki launað úr landssjóði, þar er trúarlífið fjörugast. Íslenzku söfnuðurnir vestan hafs launa sjálfir prestum sínum og eiga prestar þar við betri kjör að búa en prestar eiga yfirleitt hér á landi.

Þá var bent á það, að fyrir milliþinganefndinni í kirkjumálum hefði legið yfirlit og tillögur safnaðanna og því hefði átt að fara eftir. Eg fyrir mitt leyti hefi alt af haldið því fram og held því fram enn, að eg vil láta hvern hafa rétt á því, sem hann varðar sérstaklega, en þó verð eg að játa það, að eg er á móti því, að söfnuðirnir ráði að svo komnu nokkru um stærð prestakalla. Og vegna hvers? Vegna þess, að á meðan þeir taka ekki nema örlítinn þátt í kostnaðinum við prestakallið, er engin sanngirni í því, að þeir ráði eingöngu málum sínum — það mælir engin sanngirni með því, að söfnuðirnir fái að ráða nokkru um prestaval né annað, er kirkjunni við kemur, fyr en þeir launa prestum sínum að öllu leyti.