06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

113. mál, skipun prestakalla

Hálfdan Guðjónsson:

Það sem hefir lengt svo umræðurnar um þetta mál, er það, að menn eru í miklum vafa um, hvort nefnd verði skipuð eða ekki, til að athuga það.

Eg efast ekki um það, að þeim, sem minst hafa á málið, hafi gengið hið bezta til. Mér finst sjálfsagt að íhuga málið, því eg er viss um það, að ef þetta þing tekur óliðlega í þetta mál, þá rís upp megn óánægja í landinu og vona því fastlega, að það takist ekki að vísa málinu frá við 1. umr.

Hvernig hefir líka farið með þetta mál á liðnum tímum? Eftir að lögin frá 1880 gengu í gildi, komu fram ýmsar kvartanir og kröfur í þá átt að breyta þyrfti lögunum. Þessar kröfur hafa síðan verið teknar til greina. (Jón Jónsson S.-Múl.: Því miður.) Það hafa verið sögð hér í dag mörg spádómsorð í þessu máli og eg ætla að bæta því við, að á komandi tímum muni kröfurnar um breytingar á lögum þessum verða háværari og háværari og það er einmitt næg sönnun fyrir því, að breytinganna þurfi — því menn eru ekki að biðja um það í þessum efnum, sem er hreinn og beinn óþarfi. H. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) vildi halda því fram, að söfnuðirnir ættu ekki rétt á fleiri prestum, vegna þess að þeir borguðu þeim ekki að öllu leyti. Þetta er als ekki rétt hjá háttv. þm. Hvað eigum við þá að segja um það, þegar óskir koma fram um að læknum sé fjölgað? Ætti þá að segja: Nei, þið fáið engan lækni fyr en þið borgið honum sjálfir að öllu. Hinar löngu umr. um þetta mál eru út af fyrir sig nægur vottur um það, að málið sé mikilsvert. Eg leyfi mér að stinga upp á því, að nefnd verði skipuð í málið.