27.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

115. mál, almenn viðskiptalög

Framsögumaður (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Þetta er langur lagabálkur, sem verzlunarmálanefndin leggur fyrir þingið, samtals 71 grein.

Frv. þetta er í raun og veru ekkert annað en þýðing á frumv., sem búið er að lögleiða annarsstaðar á Norðurlöndum. Það frumv. var árangur af starfi stórrar nefndar, sem skipuð var bæði lögfróðum og verzlunarfróðum mönnum úr Danmörku, Noregi og Svíþjóð, og sat sú nefnd lengi á rökstólum, áður en hún lagði frv. fram.

Nefndin hefir farið mjög samvizkusamlega í gegnum frumv. þetta, og komist að raun um, að það er mjög vel hugsað í alla staði. Hún leggur því áherzlu á, að frumv. sé samþykt óbreytt af þinginu.

Þörfin á lögum hjá oss í þessum efnum er mjög stór, og það er afar nauðsynlegt, að öll lög, sem snerta verzlun og viðskiftalíf séu samhljóða í sem flestum löndum, eins og t. d. check-lögin eru nú samhljóða fyrir fjölda þjóða.

Lög þessi fara ekki fram á að hagga samningafrelsi manna að einu eða neinu leyti. Tilgangur þeirra er að eins sá, að færa saman í eitt og skráfesta það, sem er orðin föst viðskiftavenja manna á meðal í viðskiftalífinu, svo að dómarar geti svo farið eftir ákvæðum laga þessara, þegar um mál er að ræða, þar sem ekki hefir verið sérstaklega samið um einhver atriði.

Eg vænti þess að ekki þurfi að fjölyrða meira um lög þessi, með því flestum sé ljóst, við hvað átt er, þegar eg hefi gert grein fyrir tilgangi þeirra. Eg vona þingið taki þessu nauðsynlega frumv. vel, og láti það fá góðan byr gegnum þingið.