26.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

117. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Flutningsmaður (Jón Jónsson, 1. þm. N.-Múl.):

Eg hefi grun um, að mál þetta muni verða mörgum þm. þyrnir í auga. Mér þykir það leitt, því að ýmsir höfðu orð á því við mig út um land, að nú væri þingið svo vel skipað, frjálslynt, að þetta mál fengi nú góðar undirtektir. En hvað sem þessu líður, leyfi eg mér að bera þetta stórmál hér fram. Þetta er að vísu umfangsmikið vandamál, en úr því má gera grýlu, ekki er það svo örðugt viðfangs. Mál þetta hefir verið til umr. á þingmálafundum og er eitt af áhugamálum þjóðarinnar, og þykir mér leitt, að máli þessu hefir enn eigi verið hrundið neitt áleiðis. Í stað þess að losa um böndin hafa þau verið hert og útgjöldin aukin, og eina sambandið milli prests og safnaðarins, viðskiftasambandið, rofið.

Því næst kemur annað stórvægilegt atriði, jafnréttisatriðið. Eins og kunnugt er verða þeir, sem ekki eru í þjóðkirkjunni, og tilheyra ekki öðru trúarfélagi með viðurkendum presti, að bera sömu útgjöld og safnaðarlimirnir, og er slíkt mjög óréttlátt. Virðist hingað til í hinum svo nefndu endurbótum mjög gengið fram hjá mergi málsins. Það er engin bót, nema fyrir klerkana, að setja þá á landssjóðinn og fá öðrum innheimtuna hjá söfnuðum í hendur. En ástand kirkjunnar, eins og það er nú, er þó aðalástæðan fyrir skilnaði ríkis og kirkju.

Eg hygg, að öllum sé það ljóst, að oft kemur það fyrir, að ekki er messað, og þá sjaldan messað er, koma að eins fáar hræður. Afleiðingin er sú, að kirkjan verður með þessu gagnslaus stofnun. Prestarnir verða auðvitað súrir út af þessu, bæði ef til vill við sjálfa sig, ef þeir geta að einhverju leyti kent sér um þetta, og hinsvegar við söfnuðina. Trúaráhuginn dofnar og prestarnir verða nokkurskonar steingervingar.

Af mótbárum þeim, sem fram hafa komið gegn þessari nýbreytni, eru þær helzt, er nú skal greina:

1. Menn halda því fram, að þjóðin viti ekki, hvað hún sé að gera með þessu, það verði út í bláinn hjá henni. En það virðist mér hart, að bera slíkt fram, því að þá mætti segja hið sama um öll önnur mál, er þjóðin lætur uppi álit sitt um. Og vér, sem nú höfum verið kosnir vegna eins máls — sambandsmálsins — viljum ekki kannast við það, að þjóðin hafi þar ekki vitað, hvað hún var að gera.

2. Í sambandi við þetta segja menn að kostnaðurinn, er af þessu leiði, verði ókleifur. Þá má svara því á líka leið og hinu: þjóðin mun einnig hafa athugað þetta. Og ekki er þessi ósk þjóðarinnar af tómri vantrú sprottin. Skilnaðinn aðhyllast að sjálfsögðu frjálslyndir kirkjuvinir.

3. Þá segja menn, að þetta leiði til þess að fram komi villutrúarmenn, er afvegaleiði fólkið. Má vera að svo kunni að verða, en hví skyldi það ekki vera eðlilegt og leyfilegt? Þegar jafnmikið frjálsræði er veitt mönnum og nú er, hví skyldu menn þá ekki mega hlusta á slíka menn? Að vísu munu töluverð brögð að þessu í útlöndum, og má vera að það sé að ýmsu leyti skaðlegt, en eg lít svo á, að Íslendingar séu öðruvísi gerðir en flestir útlendingar. Þeir eru fastlyndir og dulir, athugulir og gætnir. Kreddur og seremoníur eru þeim mjög fjarri skapi.

4. Ennfremur segja menn, að þessi breyting leiði til þess, að menn verði hundheiðnir. En mér er nú spurn: Ætli þessi breyting verði til hins verra í þessu efni? Eg benti á það áðan, að kirkjan hefði lítil áhrif á kirkjulífið, eins og nú horfir við. Og þar sem því er haldið fram, að af breytingunni leiði það, að menn verði kirkjunni fráhverfir, hugsi lítið um kristindóm og verði heiðnir, þá þætti mér miklu trúlegra, að menn tækju einmitt að athuga kirkjumálin fyrir alvöru. Mér virðist hinsvegar sjálfsagt, að þeir menn, sem ekki aðhyllast kirkjuna eða kenningar hennar, fái að sigla sinn sjó, að þeir þurfi ekki að inna af höndum gjöld fyrir aðra, þar sem það er ekki í þeirra þágu.

5. Loks er því haldið fram, að með þessu lagi vilji enginn vera prestur. Það er að vísu satt, að prestar verða háðari söfnuðunum, þegar um fríkirkju er að ræða, en eg sé ekki betur en að það sé einmitt til bóta, að prestar þurfi að koma sér vel við söfnuði sína, það hlýtur að efla gott samkomulag milli hvorutveggja — og það er aðalatriðið. Að prestar fái ekki jafnmikil laun með þessari tilhögun, fæ eg ekki skilið. Reynslan í öðrum löndum, þar sem er fríkirkja, er víst sú, að prestaskortur sé þar ekki tilfinnanlegur.

Þá er að athuga það, hvernig eigi að gera upp á milli ríkisins og kirkjunnar. Mér finst sjálfsagt, að lagður yrði niður prestaskólinn, því að söfnuðirnir annast þá sjálfir mentun presta sinna. Þá ættu og kirkjujarðir að verða eign landsins. Má að vísu segja, að kirkjum hafi verið gefnar jarðir í kristilegu augnamiði, en við það er margt að athuga, — og skal eg ekki fara út í það mál að svo stöddu. En kirkjur og kirkjusjóði ætti að afhenda söfnuðunum.

Þá er sú spurning næst: Á ríkið að hafa nokkur afskifti af kirkjunni, þegar skilnaður er fenginn? Ein eru þau afskifti ríkisins, er gæti verið góð: Það ætti að gefa út á ríkisins kostnað trúmálarit, er almenningi sé sent ókeypis. Þar ætti að vera skýrt frá siðgæði og helztu trúarbrögðum heimsins, þar ætti að vera skoðanir merkustu guðfræðinga heimsins og annara stórmerkra vísindamanna, er um það rita, með öðrum orðum: almenn kristileg mentun. Þetta mundi hafa holl áhrif, að minsta kosti ekki verri en prédikanir prestanna,

Eg hefi séð það í þingtíðindunum frá fyrri þingum, að þm. hafa verið allmargir fríkirkjulega sinnaðir — og vér ættum í rauninni að vera það. En hvenær verður gerð alvara úr þessu? Nú er tíminn einmitt kominn. Og það er undarlegt, að prestar nú á tímum virðast alment horfnir frá þessari stefnu. Áður voru þeir þó allmargir mjög mikið með fríkirkju. Þeir sáu, að þetta getur ekki gengið svona. En af hverju hafa þeir nú fallið frá þessu? Má vera að orsökin sé sú, að nú hafa þeir betri launatrygging en áður. En ekki vil eg þó drótta neinu slíku að þeim, enda væri það harla ólíklegt. Veit eg ekki hvernig þeir virðulegir prestar, er hér eru á þingi, líta á þetta mál, en eg hefi þó heyrt presta mæla á þá leið.

Með þessari tillögu, er hér liggur nú fyrir, er leitast við að koma málinu á hreyfing; þess er farið á leit, að stjórnin undirbúi það til næsta þings. Mér þykir ofdýrt að láta leggja það fyrir milliþinganefnd, enda fæ eg ekki séð, að málið sé svo flókið, að stjórninni ætti að vera ofvaxið að undirbúa það fyrir næsta þing.