24.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (2346)

119. mál, mentaskólamálefni

Jón Magnússon:

Eg er einn í mentamálanefndinni, en hefi ekki getað tekið þátt í því að bera fram þessa þingsályktun. Mér þykir það ekki ólíklegt, að eitthvað megi að reglugerð mentaskólans finna, og einkum, að deildar geti verið skoðanir um það, hvernig eigi að haga ýmsum atriðum í henni. Það er svo oftast nær, að skoðanir manna falla ekki alt af saman. En þegar vel er aðgætt, þá hygg eg að gallarnir á reglugerð skólans stafi flestir frá því eða eigi rót sína að rekja til þess, að eigi hefir þótt fært að fara fram á það enn, kostnaðarins vegna, að skifta skólanum í deildir, eins og gert er í sams konar skólum í nágrannalöndunum, t. a. m. tungumáladeild, stærðfræðisdeild o. s. frv. Væri það kleyft kostnaðarins vegna að skifta mentaskólanum þannig, þá mundu falla burtu margir af agnúum þeim, er menn þykjast finna á kenslunni í skólanum.

Eg get annars ekki skilið í því, að hv. deild sé undir það búin að kveða upp nokkurt álit um reglugerð skólans eða gera ákveðnar breytingar á henni eða heimta gerðar. Slíkt mál verður að athugast og undirbúast að minsta kosti í næði af stjórninni. Hafi einhver þingmaður einhverjar óskir

fram að bera um breytingar á skólareglugerðinni, þá er rétta leiðin að snúa sér til stjórnarráðsins beina leið. Hitt finst mér alveg fráleitt að fara umhugsunarlaust hér á þinginu að samþykkja áskorun til stjórnarinnar um ákveðnar breytingar.

Það er að vísu svo, að skóli þessi og kenslan í honum á að vera svo löguð, að hún þroski skilning og greind nemendanna yfirleitt, og skal eg ekki neita því, að til þess er stærðfræði hentug að hafa fyrir aðalkenslugrein, en hér er ekki einungis á þetta að líta, mentaskólinn verður að hafa það fyrir augum að kenna beint það, er að praktiskum notum má koma í lífinu; þarf ekki að eyða mörgum orðum til að sýna fram á þetta, að minsta kosti ætti það að vera öllum ljóst, að svo er um gagnfræðadeildina, sem beint á að búa þá menn, er ekki halda áfram námi til sérmentunar, þannig út til framtíðarstarfanna, að þeir þurfi eigi frekari skólamentunar. En það er víst, að til þess þarf ekki mikið af hinni hærri stærðfræði.

Annars skal eg ekki ræða hér um hinar einstöku kenslugreinir; það verður ávalt nokkurt álitamál, hvernig skifta skuli tímanum milli hinna einstöku kenslugreina, og hver skuli helzt höfð að höfuðkenslugrein, einkum í slíkum skóla, er eigi er ráð á að skifta í deildir, eins og eg hefi áður á bent.

Hitt verð eg að leggja meiri áherzlu á, að ekki sé verið að hringla til með aldurstakmarkið fyrir inntöku í skólann, þvert á móti áliti flestallra skólafróðra manna. Verði tillaga þessi samþykt og taki stjórnin hana til greina, þannig að hún striki út aldursskilyrðin, eða að minsta kosti aldurstakmarkið að ofan, þá álít eg það mjög illa farið — beint hættulegt fyrir skólann. Að þessu leyti getur ekki verið mjög mikill munur á oss og öðrum þjóðum, og þegar vér lítum á reynslu þeirra, þá sjáum vér, að hjá þeim er þess stranglega gætt, að nemendur í slíkum skólum séu á sama aldri. Þannig er í Danmörku, Noregi og Svíþjóð aldurstakmarkið fyrir upptöku í 1. bekk miðskólans (þ. 1. bekk gagnfræðadeildarinnar hjá oss) 11—12 ára aldur, og upptöku í gymnasíið (lærdómsdeildina hjá oss) 15—16 ára aldur. Þó má gera undantekning frá aldurstakmarkinu, ef unglingurinn er seinþroska; en þessi undantekning er bundin því skilyrði, að unglingurinn sé ekki eldri en í hæsta lagi 2 árum, heldur en nemendurnir eru að jafnaði í þeim bekk, er nýsveinninn á að setjast í. Aldursskilyrðin eru þeim mun strangari í þýzkum og frönskum skólum, að þar mega nemendur aldrei vera nema ½— 1 ári eldri en aldursákvæði skólareglugerðanna tiltaka.

Þessi aldurstakmörk fyrir inntöku í skólana eru bygð á þeirri reynslu, að ef nemendurnir séu á misjöfnu aldursskeiði, sé:

1. Erfitt, ef ekki ókleyft, að haga kenslunni svo, að hún komi nemendunum að jafnmiklum notum;

2. Að andlegur þroski og þol unglinga á þessum aldri (frá 12—18 ára) sé svo mismunandi, að það geti verið ábyrgðarhluti, að heimta t. d. sömu skil af 13 vetra dreng sem 17 -18 vetra, en skólinn (eða kennarinn) verði að gera sömu kröfur til allra nemenda við prófin.

3. Og hvað aga snertir, þá verði skólinn (kennarinn) að láta sömu reglu ganga yfir alla nemendur í hinum sama bekk, en á hinn bóginn margreynt, að 15—18 ára unglingar geta með engu móti felt sig við þann aga, sem 12—13 ára unglingar gera sér að góðu, og leiða því oft hina yngri á glapstigu, og skapa þrjózku og óhlýðnisanda í bekknum.

Fleira mætti til tína, er gerir það æskilegt, að nemendur í sama bekk slíks skóla séu á hinu sama reki.

Hitt ákvæðið í þessari till., um að utanskólasveinar megi ganga undir árspróf í hverjum bekk sem er — og þá ganga inn í hvern bekk sem er — er ekki eins skaðlegt, og þó verð eg að telja það óheppilegt. Það er óheppilegt, að nemendur geti hlaupið úr skólanum eitt árið, máske bara af dutlungum, og komið svo aftur í skólann árið eftir og það er óheppilegt. Þetta getur og hæglega orðið til þess, að stundum verði í hinni sömu aldursdeild í skólanum að eins fáir nemendur, máske 4—5, eins og stundum hefir komið fyrir, og svo ef til vill árið eftir svo margir, að bekknum verði að skifta. Loks er miklu hægra fyrir kennarann að haga vel kenslunni fyrir áframhaldandi nám, ef hann veit að hann á að hafa lærisveininn frá byrjun til enda.

Um hlutfallið milli Akureyrarskólans og gagnfræðadeildar mentaskólans, skal þess getið, að mismunurinn þar er af praktískum ástæðum, sem h. þingdm. munu skilja, ef þeir að eins athuga það. Námstíminn styttri á Akureyrarskólanum, en nemendur eldri.

Umræður eru orðnar svo langar í dag, og vil eg því ekki orðlengja um þetta meira að sinni.