04.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (2361)

120. mál, húsmæðraskóli

Sigurður Gunnarsson:

Eg játa það, að undirbúningsmentun kvenna undir lífið er afarþýðingarmikið mál, og á nefndin þakkir skildar fyrir áhuga sinn á málinu; hefir hún gert sér alt far um að upplýsa það sem bezt.

Eg get eigi tekið til mín ummæli 2. þm. Árn. (S. S.) um, að eg vilji skóinn ofan af þessu máli. Það, sem vakað hefir fyrir mér, er að landsstj. aðgæti, hvort bændaskólarnir ekki geti jafnframt verið húsmæðraskólar. Líka virðist mjög svo eðlilegt, að aðgætt væri, hvort eigi mætti breyta þeim kvennaskólum, sem nú eru og koma þar að kenslu í húsmæðrastörfum. En auðvitað yrði þá landið að taka þá betur upp á armana. Það væri og ekkert á móti því, að umferðakensla væri styrkt í héruðum þeim, sem erfiðast ættu með að nota þessa skóla, og gæti hún fullvel þrifist samhliða skólunum. Eg vildi einungis benda á þessi atriði, áður en atkv.gr. fer fram.

Annars er eg að nokkru leyti á sömu skoðun og 2. þm. Húnv. (B. S.) og þykir nokkuð snemt, meðan málið er svo lítið rannsakað, að fara að stofna slíka skóla.