04.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (2365)

120. mál, húsmæðraskóli

Framsögumaður (Pétur Jónsson):

Eg vildi helzt biðja háttv. vin minn 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) að taka þessa rökstuddu dagskrá sína aftur, sem að vísu var vingjarnleg í orði. En þegar maður talar þar um traust á þinginu í þessu máli, þá er spursmál um vináttuna. Það hafa verið á fjárlagafrv. 2 upphæðir til húsmæðrafræðslu. — Önnur var alveg feld í efri deild, en hin minkuð svo, að hún er lítils virði. Ef nú á ekki að vogast til að samþykkja þessa meinlausu þingsályktunartill., þá get eg eigi talað um traust til þingsins í þessu máli. En þetta hefir stungið á kýlinu. Sumir háttv. þingm., sem láta sér svo afar-ant um kvennaskólana núverandi, halda, að húsmæðraskólarnir drepi þá. — Ef þeir geta eigi staðist þá samkepni, þá eiga þeir auðvitað eigi mikinn rétt á sér.

En eg get jafnframt gefið þær upplýsingar, að fyrir mér og nefndinni hefir vakað sú hugsun, að þegar húsmæðraskólar væru komnir á góðan rekspöl, þá gæti Reykjavíkurskólinn orðið nokkurs konar yfirskóli, og léð til hans kenslukonur og aðrar þær konur, er hærri mentunar vilja njóta, en kostur er á í húsmæðra-skólunum. Þetta mál mundi því einmitt verða til þess að beina Reykjavíkurskólanum á nytsemdar-braut.

Viðvíkjandi þeirri hættu, sem af þessu kynni að stafa fyrir Blönduósskólann, þá sýnist vera hægur nærri að breyta þeim skóla í húsmæðraskóla. Vitanlega væri hann ekki vel settur þar, ef ekki væru nema tveir húsmæðraskólar á landinu; en all-vel væri hann settur, ef slíkur skóli væri í hverjum fjórðungi landsins.

En hvað sem þessu líður, þá er þess að gæta, að þetta er að eins þingsályktunartillaga, og stjórnin og þingið næsta getur vel gengið svo frá málinu, að af því hljótist ekkert glapræði.