27.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

11. mál, fiskimat

Framsm. (Ágúst Flygenring):

Hæstv. stjórn hefir að mestu leyti tekið ómakið af nefndinni um framsögu í þessu máli. Því að athugasemdirnar, sem fylgja frumv., eru víðtækar og nákvæmar, og það lítið, sem nefndin vildi taka til athugunar, stendur prentað í nefndarálitinu. Eg skal því verða mjög stuttorður.

Það mun ef til vill mörgum þykja það hart, að innleitt sé skyldumat á öllum fiski, sem héðan er fluttur. Fljótt á að líta er þetta svo. Og eg mundi ekki hafa verið með þessu frumv., ef sú reynsla, sem hefir unnist hér á síðustu árum, væri ekki svo skýr, að hún hefði sýnt það og sannað, að þetta fyrirkomulag hefir orðið til stórmikils gagns hér við Faxaflóa.

Hingað til hefir fiskimat verið frjálst; það hefir verið kjörmat; og reynslan hefir orðið sú, að fiskimatsmennirnir hafa verið notaðir sífelt meir og meir. Útgerðarmennirnir hafa orðið þess fljótt varir, að sú vara, sem hefir verið metin hér af hinum lögskipaða yfirmatsmanni, væri betur trygð til sölu erlendis heldur en hitt, sem ekki var skoðað. Enda má segja, að hér um slóðir noti líka allir útflytjendur yfirmatsmanninn, svo að þess vegna geta útgerðarmenn við Faxaflóa sagt frumvarpið óþarft þeirra vegna. Vegna þessarar reynslu hér hefi eg orðið með frumv. Eg er hræddur um að tiltrú manna (?: kaupenda á Spáni og víðar) um vöndun á íslenskum fiski annarstaðar á landinu gæti brugðist, ef öllum mönnum yrði ekki gjört það að skyldu, að láta meta fisk sinn, enda hefir reynslan orðið sú.

Að undanförnu hefir fiskskoðunin verið að mestu leyti bundin við Faxaflóa, en nú vakir það fyrir háttv. stjórn með þessu frumvarpi, að önnur héruð verði hennar líka aðnjótandi; þar af er þetta frumv. sprottið. Á Norður- og Austurlandi hafa engir lögskipaðir matsmenn verið til þessa. Afleiðingin hefir orðið sú, að þessir landshlutar hafa átt erfitt með og enda ekki getað komið sinni vöru beint á markaðinn. Kaupendur hafa vefengt að varan gæti verið góð, þar sem ekkert mat væri á henni. Frá þessum stöðum hefir fiskurinn að eins flutzt til Noregs, Englands og Danmerkur, og þaðan hefir hann svo máske verið sendur aftur suður til Spánar og Ítalíu. Af þessu hefir hlotist töluverður kostnaður og því hafa útgerðarmenn í þess um landshlutum fengið miklu lægra verð fyrir sinn fisk, heldur en fengist hefir frá Vesturlandi og Faxaflóa.

Í þessu frumv. er nú þessum landshlutum gefinn kostur á að fá fisk sinn skoðaðan og fengnir menn upp í hendurnar til þess að gefa allar leiðbeiningar um meðferð á vörunni.

Það eru að eins 4 ár, síðan yfirmatsmenn voru skipaðir í Reykjavík og á Ísafirði. Þeir áttu meðal annars að gæta þess, að varan yrði samkynja. Það varð að fylgja föstum reglum matið. Það, sem einmitt var að athuga við gamla matið, var það, að engum meginreglum var fylgt; af því varð fiskurinn ósamkynja, svo að kaupmenn vissu ekki í rauninni hvaða vöru þeir keyptu.

Þegar Spánverjar hættu að sækja fiskinn hingað, þá vorum vér svo hepnir, að sú hefð komst á, að kaupendur urðu skyldaðir til þess að greiða andvirði fiskjarins undir eins og skipin voru fermd og hleðsluskjölin undirskrifuð. Það er gott að vera laus við þá áhættu, sem fylgir því, að senda stóra fiskfarma og eiga svo eftirkaup um söluna; því það er hvorttveggja, að það er ómögulegt að girða fyrir það, að varan geti spillst á leiðinni, og svo er hitt, að menn þykja ekki sérlega greiðir eða áreiðanlegir í viðskiftum suður á Spáni og Ítalíu, ef þeir koma því við. Það er því mjög mikils vert, að sú kaupvenja geti haldist að þessu leyti, sem eg hefi minst á. Reynslan hefir sýnt, að það er neyðarúræði að verða að senda fisk þangað suður í »consignation«. Þess vegna kjósa allir menn að sjálfsögðu að fá andvirði fískjarins greitt um leið og kaupsamningarnir eru undirskrifaðir.

Þetta frumv. er, eins og eg tók fram áðan, samið til þess að auka tiltrú útlendinga á vöndun vörunnar héðan, og ef ákvæðin næðu til allra landshluta, þá er enginn vafi á því, að varan mundi batna í heild sinni, og þar af leiðir aftur, að betra verð fengist fyrir hana. Það mætti auðvitað segja að vér þyrftum ekki á slíku lagaboði að halda, því reynslan hefði sýnt þegar, að mat kæmist á fyrir því. En — eins og líka áður er tekið fram — það verður þó til þess að ná Norður- og Austurlandi inn í heildina, sem annars gæti dregist enn þá um langan tíma.

Eftirleiðis eiga yfirmatsmennirnir að hafa eftirlit með því, að farið verði vel og rétt með vöruna í öllum tilbúningi. Þeir eiga og að verða ráðunautar útgerðarmannanna í þessu atriði. Þetta mætti ef til vill verða aðalstarf þeirra. En með því móti eykst vinna þeirra að mun, og þess vegna eiga þeir eftir frumv. að fá hærri laun.

Eg hefi mjög lítið að athuga við einstakar greinar frumvarpsins. Eg skal að eins minnast á, að það væri mjög æskilegt að stjórnin legði aðaláherzluna á það í þeim »Instrux«, sem samin verður fyrir matsmennina, að þeir gættu þess fyrst og fremst, að varan sé holl og góð til átu. Það hefir verið gengið svo langt í flokkun vörunnar af hendi matsmannanna, að það mætti ætla að það væri tilgangurinn að nota fiskinn sem skrautmyndir eða veggprýði en ekki til matar. Útvegsmennirnir kvarta þráfaldlega yfir því, að matsmennirnir geri sér nærri því far um að rýra gildi vörunnar. Þetta er alveg öfugt við það sem gjörist með öðrum þjóðum, þar sem öll »Reclame« er gerð til þess að auka gildi vörunnar og flokka hana í hina áttina, upp á við; t. d. »extra prima« eða »fin, fin«, sem haft er til að auðkenna vörugæði, án þess að gæðin svari fyllilega til þessara tákna. Hér með meina eg þó ekki, að þeir eigi, okkar matsmenn, að segja vöruna betri en hún er, heldur hitt, að þeir rýri ekki gildi þeirrar vöru, sem er góð og óskemd sem neyzluvara (matur), með því að stimpla hana »nr. 2«, máske að eins fyrir það, að lítið gat var á þunnildinu, einhver uggi kliptur af fyrir öngustungu, eða því um líkt.

Að öðru leyti hefi eg ekkert sérstakt að athuga við frumv. Ástæður stjórnarinnar eru allar bygðar á góðum og réttum grundvelli. Eg skal ekki heldur fjölyrða um breyt.till. nefndarinnar, því að hún er eingöngu orðbreyting. Eg vona að lokum, að háttv. deild taki vel við málinu og gjöri við það sem það á skilið.