20.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (2389)

127. mál, lending í Bolungarvík

Flutningsmaður (Skúli Thoroddsen):

Viðvíkjandi þessari þingsályktunartill., skal eg geta þess, að eg get verið stuttorður. Hún er komin fram samkvæmt ályktun þingmálafundar N.-Ísafjarðarsýslu.

Það mun óhætt að fullyrða, að Bolungarvík muni vera stærsta verstöð landsins. Þangað sækja ekki einungis menn úr Norður- og Vestur-Ísafjarðarsýslum til sjóróðra, heldur og úr Barðastrandar-, Dala-, Húnavatns- og jafnvel Skagafjarðarsýslu; en það er til stór baga fyrir verstöðina, hve vond lendingin er, því svo hagar til, þar sem lenda verður, að fjaran er mjög stórgrýtt, og brimasamt í Víkinni, einkum á haustum og framan af vetri. Það liggur því í augum uppi, hvaða hagur það væri fyrir héraðið og landið í heild sinni, sakir hins mikla sjávarútvegs, sem rekinn er í Bolungarvík, ef hægt væri að bæta lendinguna.

Á seinasta þingi voru samþykt lög þess efnis, að mönnum væri heimilt að gera samþyktir, þar sem ákveðið væri að greiða skyldi í lendingarsjóð ákveðið gjald af hverjum hlut frá sjó, til að bæta lendingar, og þessa heimild hafa Bolvíkingar hagnýtt sér, og gert öllum, er þaðan sækja sjó að skyldu að borga í lendingarsjóð 1 kr. af hverjum hlut, og nemur þessi upphæð yfir vetrar- og vorvertíð líklega um 1000 kr.

Það er nú ósk héraðsbúa, að verkfræðingur verði látinn skoða lendinguna, og gefa upplýsingar um, á hvern hátt líklegast væri að bæta hana, og gera áætlun um kostnaðinn; og þessi nauðsyn er orðin enn brýnni, sakir hins mikla fjölda mótorbáta, sem nú gengur úr Víkinni, þar sem mjög örðugt er að setja þá á land, sakir þyngslanna.

Verkfræðingur hefir að vísu einu sinni verið látinn skoða og gera áætlun um, hvar og hvernig gera mætti brimbrjót í Víkinni, og mun sú upphæð, sem til þess þyrfti, að hans áætlun, yfir 200 þús. kr., en þetta er svo há upphæð, jafnvel þótt sjálfsagt væri, að landssjóður legði til talsverðan hluta af kostnaðinum, að héraðsbúum er það algerlega ókleyft að koma verkinu í framkvæmd; en nú hefir mönnum hugkvæmst að gera mætti umbætur á lendingunni á kostnaðarminni hátt, og um það þyrfti verkfræðingurinn að segja álit sitt.

Eg vona af þessum ástæðum, að háttv. þingdeild taki tillögunni vel, og samþykki hana.