15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (2398)

128. mál, bréfhirðing á Dynjanda

Ráðherrann (H. H.):

Eg er forviða á því að háttv. þm. (Sk. Th.) skuli leyfa sér að bera hér á borð svo ósvífin ósannindi, að eg hafi svikið loforð mín um þingsályktun viðvíkjandi skólareglugerðinni, og mér þykir kynlegt að háttv. forseti skuli ekki finna ástæðu til að hringja bjöllunni, þegar svona orðbragð er haft. Bæði h. virðulegi þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) og aðrir, munu minnast þess, að eg lofaði einmitt engu um efni þeirrar þingsályktunar, öðru en því, að leita álits skólamanna, er vit hefðu á þessu, og gera það sem forsvaranlegt álitist að þeirra dómi, og eg hefi fyllilega haldið alt það, sem með nokkrum rétti er hægt að segja, að eg hafi dregist á í þessu efni. Eg tók skýrt fram, að eg gæti als ekki gert í því annað en það, sem álíta yrði hentugt í kenslufræðislegu tilliti, og var á móti röksemdum tillögumanns, eins og þingtíðindin sýna. Aðdróttun þingmannsins er gersamlega ósönn og ástæðulaus. Annars er mér lítt skiljanlegt, hvernig þessi hiti hefir getað komist í þingmanninn út úr ekki merkilegra máli en þessi þingsályktunartillaga hans er.