22.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (2402)

129. mál, verslunar- og atvinnumál

Flutningsmaður (Magnús Blöndahl):

Eg get verið stuttorður um þetta mál að þessu sinni. Allir munu vera samdóma um það, að nauðsynlegt sé að skipa nefnd til að íhuga verzlunar- og atvinnulöggjöf þessa lands og að sú grein löggjafarinnar þurfi umbóta við, heldur fyr en seinna. Eg læt mér því nægja að drepa á örfá atriði þessu til stuðnings.

Hér á landi er leiðin til þess að gerast kaupmaður um of auðveld. Hver, sem lögaldur hefir og óflekkaður er að mannorði, getur fengið borgarabréf og leyfi til að reka verzlun. Afleiðingarnar af þessu eru þær, að fjöldi manna tekur að reka verzlun, sem enga eða litla þekkingu hefir til þess, og að því rekur svo fyr eða síðar, að þeir verða gjaldþrota og hætta kaupskap.

Í öðrum löndum, t. d. í Noregi, eru skilyrðin miklu strangari en hér; þar er þess krafist, að kaupmenn hafi próf í verzlunarfræði, og ekki nóg með það, heldur hafi stundað þá atvinnugrein um ákveðinn tíma, helzt sem yfirboðarar, áður þeir fái leyfi til kaupskapar.

Af öðrum atriðum, sem bæta þyrfti úr, má nefna löggildingu verzlunarbóka, sem víða tíðkast í öðrum löndum, að því er mér er kunnugt. Í annan stað virðist og kominn tími til að draga skarpa línu milli stórkaupaverzlunar og smákaupaverzlunar. Að vísu kveður ekki mikið að stórkaupaverzlun hér á landi enn sem komið er, en sjálfsagt rekur að því innan skamms tíma. Enn er það, að engin ákvæði eru til um sambandið milli nemenda hjá kaupmönnum og kaupmanna, hvorki um það, hve lengi nemendur skuli vera í læri, né hverjar sé skyldur húsbænda gagnvart nemendum og nemenda gagnvart húsbændum.

Úr þessum atriðum og fleiri því líkum þyrfti að bæta hið bráðasta.

Sama er að segja um ýmsar iðnaðargreinar; þar er fylsta ástæða til að fá skýr lagaákvæði um, hvað útheimtist til að geta orðið byggingameistari o. fl. Nú getur hver og einn, sem sveinsbréf hefir, þegar að afloknu prófi tekið sveina og gerst meistari, sem kallað er. Þetta er mjög athugavert. Það segir sig sjálft, að menn, sem nýlega hafa lokið prófi í sinni iðngrein eru ekki færir um að leysa af höndum stórvirki, án þess að hlutaðeigendur skaðist af því; það er ekki á færi ungra og óþroskaðra manna. Hentugra væri, að þeir gætu ekki tekist slíkt á hendur fyr en þeir hefðu unnið sem sveinar um ákveðinn tíma. Þá er og í mörgum greinum iðnaðar enginn lærdómur heimtaður, ekki einu sinni að viðkomendur hafi haft tilsögn eða tekið þátt í vinnunni lengri eða skemmri tíma.

Eg skal ekki fara fleiri orðum um tillöguna. Legg eg til, að 5 manna nefnd verði sett í málið.