22.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

130. mál, samgöngumál

Flutningsmaður (Benedikt Sveinsson):

Upphaflega var til þess ætlast, að skipuð yrði 5 manna nefnd til þess að fjalla um þetta mál, en við nánari íhugun þótti flutningsmönnum betur henta, að nefndin yrði skipuð 7 mönnum, vegna þess að málið er mjög umfangsmikið.

Þau mál, sem nefndinni er ætlað að fjalla um, eru samgöngumál á sjó og landi, sem ætlað er fé til í 13. grein fjárlaganna, B og C lið. Svo þótti sem starfsvið nefndarinnar mundi verða ærið, þótt póstmálum, símamálum og vitamálum væri ekki á hana hlaðið.

Samgöngur á landi eru komnar í fast og ákveðið skipulag; hefir verið byrjað á flutningabrautum og akvegum í ýmsum stöðum og verður ekki við það hætt, eða út af breytt, því sem þegar er hafið. Nefndin þarf því lítt eða ekki að fjalla um þessa grein samgöngumálanna.

Aðalstarfsvið nefndarinnar mun því einkum beinast að samgöngum á sjó; bæði eru þau mál margbrotnari miklu en samgöngur á landi, og einkum er nú sérstök ástæða til að athuga það mál vandlega, er stjórnin æskir heimildar til að semja um eimskipaferðir til 8 ára, í stað þess að hingað til hafa samningar oftast náð til tveggja ára að eins. Það er því fremur ástæða til að vanda samningana, sem þeir eiga lengur að standa, eins og allir munu sjá og kannast við.

Félag það, »hið sameinaða danska eimskipafélag« er hingað til hefir haldið uppi samgöngum hér innan lands og landa í milli, hefir ekki notið vinsælda landsmanna. Hefir því, með ærnum rökum, verið fundið margt til foráttu, en einkum það, að það hefir jafnan litið eingöngu á hag sinn og Danmerkur en ekki hag Íslands. Íslendingar hafa mátt nauðugir-viljugir sæta því, að hafa samband við Kaupmannahöfn einvörðungu, að heita má, og þar með verið bægt frá viðskiftum við verzlunarborgir í öðrum löndum, sem þeim væri miklu hagkvæmara að eiga kaupskap við. Þetta hefir heft verzlun og auðsæld landsins mjög tilfinnanlega.

Nú er nauðsyn á að leitast fyrir um það, hvort ekki megi fá beinar samgöngur við England; þaðan kaupum vér margar helztu nauðsynja-vörur landsins, og þar er eini markaðurinn fyrir smjör héðan, sem hægt er að nota. Til þess að sá markaður komi að fullum notum þarf tíðar ferðir milli landanna um sumartímann, og læt eg að þessu sinni nægja að vísa til tilmæla þeirra, sem komið hafa fram á þingmálafundum og frá landbúnaðarfélaginu um það mál. Enn hafa og ýmsir hreyft því, að æskilegt væri að koma á beinum samgöngum við Hamborg, því að hingað til lands flytst nú ógrynni af þýzkum vörum frá Kaupmannahöfn, sem lagst hefir óþarfakostnaður á. Landinu verður aldrei annað en beint óhagræði að þeim krókaleiðum, að fá þær vörur frá Danmörku, sem þangað eru fluttar frá öðrum löndum, og hingað mætti flytja miðilslaust beinni leið. — Þess má enn geta, að nýlega hefir komið bending um það frá fróðum manni og kunnugum, að ágætur markaður gæti fengist fyrir íslenzka síld í Hollandi og jafnvel einnig fyrir saltfisk héðan, en ilt verður að nota þann markað svo sem samgöngum er nú háttað; til þess þyrfti beinar ferðir. Loks sýnist ekki úr vegi að koma á beinum ferðum til Spánar, þar sem þangað er flutt aðalvara þessa lands. Nú er fiskur oft fluttur fyrst til Danmerkur og síðan til Spánar, og er það dýrkeyptur óþarfa-krókur.

Að því er kemur til strandferðanna, þá dylst engum, að þær hafa verið óhagkvæmastar í þeim héruðum landsins, sem verstar hafa samgöngurnar á landi. Vil eg nefna þar til Norður-Þingeyjarsýslu og Austur-Skaftafellssýslu. Strandbátarnir eru einu skipin, sem ætluð eru héruðum þessum og koma þar þó ekki nema endrum og sinnum, svo að sýslur þessar eru nær því samgöngu-lausar, móts við aðra hluta landsins. Reyndar sé eg, að stjórnin ætlast til, að bætt verði úr þessu að nokkuru, með því að veita fé til strandferða milli Hornafjarðar og Langaness, og í annan stað milli Eyjafjarðar og Öxarfjarðar. En þá verður svæðið milli Öxarfarðar og Langaness algerlega afskift, því að Austfjarðabáturinn fer ekki lengra en að Langanesi að austan. Þetta fyrirkomulag er óþolandi með öllu, og er sjálfsögð krafa, að réttur sé hlutur þeirra hafna, sem á eru þessu svæði, það því fremur, sem þar koma ekki millilandaskip, og strandbátar svo að illa nægir, eins og fyr var sagt.

Þetta skal eg láta nægja um þessa hlið málsins.

Eg vil því næst nefna þá hlið samgöngumálanna, sem viðvíkur útgerðinni sjálfri; hingað til hefir ekki neitt verið rannsakað, hvað slík útgerð mundi kosta, né hvað hún gefur í aðra hönd, en eg tel brýna nauðsyn á, að leitað sé sem fylstra upplýsinga um þau atriði. Hér þarf að íhuga, hvort ekki er vinnandi verk, að landið eignist sjálft skip, sem haldi uppi samgöngum landa milli og með ströndum fram. Ef landsmenn ættu skipin sjálfir, að miklu eða öllu leyti, þá gæti þeir ráðið yfir ferðunum og hagað þeim að öllu eftir því sem bezt þætti henta. Eg þarf ekki að fjölyrða um, hversu slíkt fyrirkomulag hlyti að efla framfarir landsmanna í ýmsum mikilvægustu atvinnugreinum, svo sem verzlun og siglingum. Slíkt er augljóst. Það hefir flogið fyrir eyru mín, að Thorefélagið muni vilja gefa landinu kost á að gerast hluthafi í félaginu, og sé von á tilboði um það frá félaginu innan skams, en að svo stöddu get eg engan dóm lagt á, hvernig þeirri málaleitan skuli tekið. —

Fer eg svo ekki lengra í þetta mál að sinni, en vil leyfa mér að mæla með, að 7 manna nefnd sé skipuð í málið.