20.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

138. mál, jarðabótamat

Flutningsmaður (Skúli Thoroddsen):

Eins og háttv. þingdeild mun kunnugt þá hagar svo til í sýslum þeim, er liggja norðan Gilsfjarðar, að landið er víða mjög hrjóstrugt, borið saman við það, sem gerist í öðrum landshlutum t. d. á Suðurlandi, nema þá á stöku jörðum. Í nefndum héruðum er því mun kostnaðarsamara og erfiðara að gera jarðabætur en alment gerist í flestum, ef eigi öllum öðrum héruðum landsins. Á Vestfjörðum eru túnin eigi óvíða utan í og neðst í meira eða minna bröttum fjallshlíðum, þýfð, brött og mjög grýtt. Þess vegna er erfitt að bæta þau, einkum þegar tekið er tillit til þess, hve jarðvegurinn er harður og grýttur, og allar jarðabætur verða því mjög seinunnar og kostnaðarsamar. Það er því auðsjáanlega mikill munur í að vinna þessa jörð eða brattalausa valllendismóa, sem má plægja og vinna með öðrum verkfærum.

Enn ber þess að gæta, að tíminn, sem hægt er að vinna að jarðabótum á Vestfjörðum, er mikið styttri en á Suðurlandi. Fyrir vestan verður vanalega ekki byrjað á jarðabótum fyr en í öndverðum júní og ekki alment unnið lengur en til septemberloka, og stundum eigi svo lengi, þar sem á Suðurlandi má á hinn bóginn alloft byrja í apríl og vinna til nóvemberloka.

Af þessum örðugleikum, sem eg hefi bent á, að eru almennari á Vestfjörðum en í nokkurum öðrum landshluta, leiðir það, að þeir, sem vilja ná í styrk þann, er landssjóður veitir búnaðarfélögum, eiga örðugra aðstöðu og fá hlutfallslega mikið minni styrk, miðað við þá vinnu, sem þeir þurfa að leggja fram, en búnaðarfél. í öðrum hlutum landsins.

Í sambandi við hið fyrgreinda má benda á það, að Ræktunarsjóðurinn er því nær lokaður, að því er bændur á Vestfjörðum snertir, þar sem þeir vegna staðháttanna eigi geta kept við bændur í öðrum héruðum, að því er til jarðabóta kemur, með því að dagsverkatalan hlýtur að verða miklum mun minni, þótt jöfnu sé til kostað.

Af þessum ástæðum, sem eg hefi nefnt, er það sprottið, að menn í mínu kjördæmi hafa óskað þess, að sett væru þau ákvæði, að af jarðabótum verði minna lagt í dagsverk á Vestfjörðum, en í öðrum héruðum landsins. Nú eru í þessu tilliti látnar gilda sömu reglur yfir land alt, án þess nokkurt tillit sé tekið til staðhátta. — Eg vona, að hinir háttv. þm. sjái, að hér er um sanngirniskröfu að ræða, og eg veit, að það er ósk þingsins, og það er líka skylda þess að sjá um, að sumir landsbúar séu eigi að því er til jarðabóta kemur, mun ver settir en aðrir, eins og nú á sér stað.

Af því nauðsynlegt er að athuga þetta mál og skeð getur, að heppilegt væri, að sýslunefndir hefðu t. d. einhver afskifti af því, hversu sanngjarnt sé, að lagt sé í dagsverk í hverju einstöku héraði, eftir staðháttum o. fl., þá vil eg leyfa mér að leggja það til, að umræðunum um málið sé frestað í bráð og því vísað til landbúnaðarnefndarinnar