11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1981 í B-deild Alþingistíðinda. (2446)

139. mál, áætlanir og mælingar verkfræðings

Flutningsmaður (Björn Sigfússon):

Hæstv. ráðherra (H. H.) gat þess, að ekki væri von, að hver einstakur þm. vissi, hvað ransakað hefir verið. — Það er að vísu satt, en svo er þess að gæta, að þó að eitthvað af þessu, sem hér er farið fram á að ransaka, hafi verið athugað áður, getur verið full ástæða að ransaka það betur, t. d. vitastæði og brúarstæði. Vel getur komið fyrir, að aðrir hentugri staðir finnist en þeir sem upphaflega voru hugsaðir. Grímsey eða vitastæði þar, mun ekki hafa verið rannsakað til hlítar; skipstjóra greinir mjög á, sumir telja þetta nauðsynlegt, aðrir ekki. Á Skaga hefir vitastæði verið ransakað, en staðurinn þykir illa valinn, sumir telja hentara að hafa vitann norðaustan á Skaganum, aftur vilja aðrir skipstjórar hafa hann vestan til og færa þeir allglögg rök fyrir sínu máli og þau hygg eg miklu réttari. En einmitt vitastæðið vestan á hefir ekki verið athugað enn. Þetta þarf að ransaka til hlítar og fram á það fer till.

Eg veit það vel, að brúarstæði á Miðfjarðará hefir verið ransakað fram hjá Krókstaðamelum, en ekki annarsstaðar. Síðan hefir ýmsum mönnum í því héraði hugkvæmst að brúarstæði gæti verið norðar, alveg út við sjó. — Sé svo, að þar mætti brúa ána, mundi það verða miklu hagfeldara, bæði fyrir þá er verzlun sækja á Hvammstanga og sömuleiðis fyrir langferðamenn. Full þörf er því að ransaka þetta nánara.

Þá ætla eg að leyfa mér að upplýsa það, að komið hafa fram margítrekaðar óskir frá sýslufundi Húnvetninga um það að fá skoðað svifferjustæði á Blöndu. Þetta hefir þó ekki enn í dag verið framkvæmt og sýnir það, að ekki er einhlítt, þótt slíkar óskir séu bornar fram fyrir stjórnina. Eg er þó ekki að ásaka hana fyrir þetta, hún hefir í mörgu að snúast og verkfræðingurinn ærið að starfa og vantar tíma. Væri þessu þó sint mætti slá fleiri flugur í einu höggi og vil eg leyfa mér að benda á, að um leið og verkfræðingurinn skoðaði brúarstæðið á Miðfjarðará, þá gæti hann litið eftir ferjustaðnum á Blöndu, skoðað veginn yfir Gönguskörðin og höfnina á Sauðárkrók.

Ekki hefir mér dottið í hug að gefa verkfræðingnum vantraustsyfirlýsingu, fjarri fer því. Till. er að eins að skoða sem áminningar eða yfirlýsingar um það, hvers menn óska.