11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (2447)

139. mál, áætlanir og mælingar verkfræðings

Eggert Pálsson:

Eg á breyt.till. á þskj. 171, og mun ekki vera svo óheppinn eða réttara sagt heppinn, að þegar sé búið að framkvæma það, sem þar er farið fram á, sein sé að ransaka brúarstæði á Þverá. Orsökin til þess, að eg ber upp breyt.till. er sú, að borist hefir áskorun til þingsins frá kjósendum í Landeyjahreppum þess efnis, að það léti ransaka brúarstæði á þessari á. Mér þótti því rétt að láta þessa breyt.till. verða samfara hinum tillögunum, sem þegar eru framkomnar, því að ekki hefir hún minna til síns máls en þær. En það skal eg taka fram, að frá minni hálfu er hún als engin vantraustsyfirlýsing til verkfræðingsins.

Flestir kunnugir munu vera því samþykkir, að Þverá er slíkt vatnsfall, sem ætti að brúa, ef unt væri. Hún er hið mesta manndrápsvatn; segja gamlir menn, að hún hafi gleypt yfir 20 mannslíf, sem sögur fari af og má meira að segja undarlegt virðast, að hún skuli þó ekki hafa valdið fleiri slysum en raun hefir á orðið jafn ægileg og ill sem hún er yfirferðar. Eg hefi ekki nefnt neinn sérstakan stað, þar sem ransókn skyldi helzt fram fara, því það er ekki nema á sérfróðra manna færi að dæma um það, hvar helzt mundi tiltækilegt að brúa á þessa. Það gæti vel farið svo, að það yrði að vera langt úr þjóðleið, enda er áin ekki alt af farin á þjóðleið sem stendur af langferðamönnum, heldur er hér og þar farið yfir hana, eftir því sem tiltækilegast þykir í þann og þann svipinn, svo sem á sér stað með öll aur- og jökulvötn. Eg gæti ímyndað mér, að það gæti ef til vill komið til mála að veita ánni burt úr farveg sínum og yfir í Markarfljót. Mér er sagt, að verkfræðingur hafi sagt hér um árið, er áin brautst fram um Valalæk, að á að giska mundi slíkt kosta um 40 þús. kr. Slíkt er auðvitað ekki, að skoða öðru vísi en sem lauslega ágizkun. En það er vel þess vert, að það verði ransakað betur. Því auk þess sem það mundi hafa ómetanlegan hagnað í för með sér fyrir sveitirnar, sem að Þverá liggja, með tilliti til þeirra skemda, sem hún veldur, þá gæti þetta ef til vill leitt til þess, að tiltölulega hægar yrði að brúa öll vötnin í einu lagi í Markarfljótsfarveginum. Og væri það auðvitað það ákjósanlegasta. En alt slíkt er eins og gefur að skilja að eins verkfróðs manns að dæma um.

Eg skal svo ekki fara frekari orðum um þetta, en vona, að þessari tillögu verði að minsta kosti gert jafnt undir höfði og hinum, sem fram hafa komið.