13.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (2461)

141. mál, skjöl í Árnasafni

Ráðherrann (H. H.):

Eg þykist vita, að háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) hafi frekar gert þessa fyrirspurn til þess að fá tækifæri til að halda þessa fróðlegu og vel sömdu ræðu, heldur en til þess að fá svar mitt, því það er hvorttveggja, að eg hefi sagt honum alt sem eg hefi að segja um þetta mál, enda var auðgefið að fara í stjórnarráðið og fá þar að vita um öll skjöl og skilríki, er að þessu máli hita.

Eg held að mér sé óhætt að segja, að stjórnarráðið hefir gert það sem í þess valdi stóð til þess að fá þingsályktunartill. fullnægt. Þegar eg sigldi með lögin eftir þing 1907 fann eg kirkju- og kenslumálaráðherrann að máli, og skýrði fyrir honum ástæðurnar fyrir málaleituninni. Hann tók málinu vel og lofaði, að málið skyldi verða tekið til rækilegrar athugunar. Eftir samkomulagi okkar fól eg svo landsskjalaverðinum að búa til skrá yfir þær bækur og skjöl, sem sérstaklega er við átt, og inti hann það fljótt og röggsamlega af hendi. Skrá þessi er til prentuð og sendi eg kenslumálastjórninni ásamt skránni þýðing af hinu ítarlega bréfi landsskjalavarðar um málið, um leið og eg fór fram á að fá einnig íslenzk skjöl úr Ríkisskjalasafninu. Mér er kunnugt um, að þetta var sent stjórn Árna Magnússonarsafnsins og ríkisskjalaverðinum, en svar er enn ókomið frá þeim. Þegar eg dvaldi í Höfn í fyrra vegna sambandslaganefndarinnar, skrifaði eg til kirkju- og kenslumálaráðherrans, minti á málið, og óskaði þá eftir, að því væri flýtt sem mest; fekk þá og góð orð en ekkert svar, því að forstjórar safnanna voru ekki búnir að láta uppi álit sitt og tillögur.

Þegar eg kom til Hafnar í vetur, skrifaði eg enn kenslumálaráðaneytinu og bað það að flýta svarinu, þar sem eg þyrfti að gera alþingi grein fyrir málinu, en eg hefi ekki fengið svar; þó hefi eg orðið var við, að erindi mitt hefir verið sent áfram til stjórnar Árna Magnússonar safnsins, og síðan hafa þeir setið ásamt ríkisskjalaverði á rökstólum. Ráðherrann sjálfur virtist vera málinu hlyntur og eg get vel ímyndað mér, að hinn nýi ráðherra geti fengið óskum alþingis að mestu framgengt, ef hann fer vel og lipurlega í málið.