15.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

Umræður um kjörbréfin

Björn Jónsson:

Eg ber fylsta traust til hinnar háttv. kjörbréfadeildar, sem um bréf þetta hefir fjallað, að tillaga hennar sé á rökum bygð. Eg þekki svo marga af þeim þm., sem þar voru, að því, að eg veit, að þeir hafa viljað gera það eitt sem rétt er. Þó er eg á því, að rétt sé að rannsaka þetta mál í nefnd til þess að upp verði kveðinn alveg órengjanlegur úrskurður, einkum vegna þess, að svo mikið umtal hefir orðið um þessa kosningu, að full nauðsyn er á, að gera alt til þess, að eyða allri tortryggni. Hin rétta aðferð er sú, að fresta þessu máli að sinni, og síðar, þegar kosinn hefir verið forseti í sam. þing, að kjósa þá nefnd, samkv. 3. gr. þingskapanna. Það má að vísu segja, að all hart sé fyrir þingmanninn að þurfa að bíða nokkra daga, án þess að vita, hvort hann er »keyptur eða seldur«, eins og kallað er. En flýta má málinu svo sem hægt er, og lúka því á einum degi. Eg geri ráð fyrir, að nefndin komist að sömu niðurstöðu eins og kjörbréfadeildin, en eigi að síður legg eg til, að hún sé skipuð. Eg legg því til, að þessi aðferð sé höfð svo engan efa sé hægt að draga á gildi kosningarinnar.