18.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (2516)

Umræður um kosningu Seyðisfjarðarkaupstaðar

Framsögumaður minni hlutans (Skúli Thoroddsen):

Mig furðar mjög á því, að menn skuli þurfa að eyða orðum um þetta mál, jafn ljóst og greinilegt eins og það virðist vera.

Spurningin er um það, hver sé réttkjörinn þingmaður Seyðf., og þá getur mér ekki blandazt hugur um það, að sá sem flest atkv. kjósenda fékk sé í raun og veru rétt kjörinn, og það er ómótmælanlegt, að Björn prestur Þorláksson hefir 10. sept. síðastl. fengið fleiri atkv. en dr. Valtýr. Það sem veldur því, að hann ekki fær kjörbréf, er athugaleysi yfirkjörstjórnarinnar, og er furða, að nokkur kjörstjórn skuli bafa tekið þá seðla gilda, er ágreiningurinn hefir risið út af.

Eg fæ ekki betur séð, en að það sé bein afleiðing af ógildingu kosningar dr. Valtýs, að síra Björn sé viðurkendur löglega kjörinn þingmaður kjördæmisins, því að af 29. gr. stjórnarskrárinnar verður ekki séð, að það, að geta sýnt kjörbréf, sé óhjákvæmilegt skilyrði, heldur er sá rétt kjörinn, sem flest hefir atkv. fengið.

Gæti þingið eigi réttar hins kjörna manns, Björns Þorlákssonar, eða kjósenda hans, en afsali sér valdi sínu í hendur kjörstjórna, þá skerðir það mjög þau réttindi, er það hefir; en það getur orðið stórháskalegt, því afleiðingin getur orðið sú, að ef einhver yfirkjörstjórn hefir eitthvað á móti þingmannsefni, þá þarf hún ekki annað en að gera fleiri eða færri af seðlum hans að vafaseðlum og verða þess þannig valdandi, að kjósa verði að nýju. En þingið er í þessu máli yfirréttur, og á að fella dóm í því, hver kjörinn sé, eins og glögt sést meðal annars af því, að lögin mæla svo fyrir, að ágreiningsseðlar skuli lokaðir innan í umslög og innsiglaðir, til þess að áreiðanlegt sé, að öll gögn komizt óbrjáluð í hendur þingsins. Og meiningin með því hlýtur að vera sú, að alþingi hafi vald til þess að úrskurða seðlana gilda eða ógilda og um leið að úrskurða þann rétt kjörinn, er hlotið hefir flest atkv.

Hvernig hefði nú farið, hefði yfirkjörstjórnin gert rétt og dæmt seðla dr. Valtýs ógilda? Enginn vafi er á því, að þá hefði Björn Þorláksson auðvitað verið talinn rétt kjörinn þingmaður kjördæmisins.

En nú hefir þingið úrskurðað vafaseðlana ógilda, og þá liggur í augum uppi, þar sem alþingi hefir æðsta úrskurðarvald í málinu, að þá hlýtur það að telja þann rétt kjörinn, er fleiri hefir atkv., og bæta þannig fyrir glappaskot yfirkjörstjórnarinnar.

Hvernig getur alþingi látið það um sig spyrjast, að það láti kjósa upp aftur af þeirri einu ástæðu, að yfirkjörstjórnin hefir talið seðlana vitlaust?

Eg vona því, að þingið hugsi sig vel um, áður en það greiðir atkv. um þetta mál.

Frá sjónarmiði minni hl. er málið svo ljóst, að hann er í engum vafa um það, að þingið gerir rangt, ef það ógildir kosningu síra Björns Þorlákssonar og opnar þannig yfirkjörstjórnunum veg til þess, að hafa þau áhrif á gildi kosninga, sem þeim er eigi ætlað að hafa að lögum.