18.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (2517)

Umræður um kosningu Seyðisfjarðarkaupstaðar

Kristján Jónsson:

Eg vildi leyfa mér að bæta nokkru við það, sem háttv. framsögum. meiri hlutans tók fram, sjálfs mín vegna.

Það mun vera meiri hluta þingsins kunnugt, að sá maður, sem hér á hlut að máli, er mér náskyldur, og eg skal ennfremur lýsa því yfir, að hann hefir frá því í bernsku verið einn bezti vinur minn. Mér mun því tæplega verða borið á brýn, að eg sé hlutdrægur í hans garð í þessu máli.

Hér er ekki um flokksmál heldur um dómsmál að ræða. Það er ekki flokksmál þess flokks, sem eg er í; það er ekki um annað að tala en það, hvað eru lög í þessu máli. Þingið á að dæma lög í málinu.

Vér verðum að athuga hvar vér eigum að standa, að vér eigum að standa á grundvelli laganna. Eg vil leyfa mér að minna á lagafyrirmæli þau, er hér að lúta. Það hefir verið minst á 29. gr. stjórnarskrárinnar. Hún hljóðar svo: »Alþingi sker sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir«. Það liggur í þessum orðum, að sá maður, hvers kosning kemur undir úrskurð þingsins, verður áður að vera lýstur þingmaður, verður að koma fram sem »þingmaður«. Sama er að segja um 1. gr. þingskapalaganna. Þar er aftur talað um þingmannninn, og um úrskurð þingsins sem innsigli eða stimpil á það, að hann sé löglega kosinn á þing.

Í 3. og 4. gr: þingskapalaganna er talað um verkefni þingsins í slíkum málum. Þar er að eins talað um úrskurðarvald þingsins um gildi kosningar þeirra þingmanna, sem kjörbréf hafa. Þetta er alt í samræmi við það, sem ákveðið er í stjórnarskránni.

Í niðurlagi 2. málsl 48. gr. í kosningarlögunum til alþ. 3. okt. 1903 stendur, að yfirkjörstjórn »lýsi þann eða þá kosna, er hlotið hafa flest atkvæði, er hún tekur gild«. Og í 50. gr. er fyrirskipað, að yfirkjörstjórn gefi út kjörbréf fyrir þingmanninn, og tilkynni úrslit kosningarinnar. Hér sést ljóslega, hvað útheimtist til þess, að þingmaður geti mætt á þingi, sem kosinn fyrir þetta eða hitt kjördæmi. Yfirkjörstjórnin á að lýsa þingmanninn rétt kjörinn þingmann kjördæmisins, gefa honum kjörbréf og afgreiða svo kosningargjörðina, svo að hún geti komist til úrskurðar á alþingi. Það er gert að skilyrði fyrir lögmætri kosningu, að henni sé yfirlýst af kjörstjórninni og hún síðan afgreidd til alþingis.

Eg hefi tilgreint hér þau lagaboð, sem lúta að þessu máli, og fleiri eru ekki til, er þýðingu hafa fyrir úrslit þess, eins og það horfir við. Þingið á að eins að úrskurða um kosningu þess manns, sem mættur er sem þingmaður og hefir kjörbréf eða yfirlýsingu yfirkjörstjórnar um að hann sé rétt kjörinn, en annara ekki. Þetta höfum vér nú þegar gjört, þingið hefir úrskurðað kosningu dr. Valtýs Guðmundssonar ógilda, og þar með er hlutverki þingsins í þessu máli lokið. Það getur eigi lögum samkvæmt úrskurðað annan mann rétt kjörinn þingmann kjördæmisins.

Eg lagði það til þessa máls um daginn, að nefnd yrði skipuð til þess að rannsaka það frá rótum og ítarlega, og öll þau gögn, sem að því lytu, þar á meðal einkanlega kæru- og kröfubréf sr. Björns Þorlákssonar. Nú hefir það verið gjört, og eg hefi skýrt þinginu frá mínu áliti á málavöxtum og leyfi mér innvirðulega að minna þingið á, að halda nú lög.

háttv. herra, sem hér á hlut að máli, á auðvitað sama rétt á að njóta laga, eins og aðrir borgarar landsins, og ef til vill hefir hann orðið fyrir skakkafalli í þessu máli. En borgarar í Seyðisfjarðarkaupstað eiga líka sinn rétt. Og samkvæmt þeim rétti er nú svo komið, að kosning verður að fara fram að nýju í kjördæminu. Kjósendur þar eiga heimtingu á því.

Það má gera margt til þess, að kosning á Seyðisfirði geti farið sem fyrst fram á ný. Nú er ritsíminn til afnota. Landsstjórnin getur stytt alla fresti og með því móti ætti kosningin að nýju að geta verið um garð gengin á 3 vikna fresti. Annað þingmannsefnið er hér enn í bænum og getur beðið hér úrslita kosningarinnar, ef honum lýst svo.

Það verður að mínu áliti að taka aðallega tillit til kjósenda kjördæmisins í þessu máli, því að ef þingið úrskurðar að síra Björn Þorláksson sé réttur þingmaður kjördæmisins, þá mundi það verða sagt af mönnum þar eystra, að þeir væru bornir lögum, væru ólögum beittir. Og eftir því sem eg hefi sagt nú á undan, væri það rétt mælt.

Þetta væri mér mjög á móti skapi, einkum af því að eg telst til meirihlutaflokksins hér á þingi. Meirihlutaflokkur verður um fram alt að varast að beita valdi sínu móti lögunum.

Svo eg minnist enn á kjörseðlana, sem kært var yfir, þá var það álitamál, hvað gallarnir væru stórir á þeim. Það má vel vera að þeir hafi verið nægir til þess að ónýta kosninguna, eins og gert var. En úr því að talað hefir verið um hér í deildinni að menn hafi gengið í hópum að kjörborðinu svo á sig komnir, að þeir hafi ekki vitað fótum sínum forráð við kosningarnar, þá er það vel skiljanlegt, að seðlarnir urðu gallaðir, og þá sé eg ekki betur en að réttmæt afleiðing þessa sé, að gengið verði til kosninga á ný í þessu kjördæmi.

Það hefir hér verið talað all mikið um, að kjörstjórnirnar fengju eftir þessum úrslitum of mikið vald samkv. kosningarlögunum, en það verður að muna eftir því að önnur lög eru til, er ætla má að haldi kjörstjórnunum á réttri braut. Það má búast við því, að í kjörstjórnum eigi ekki aðrir sæti en góðir og heiðarlegir menn; eg ætlast til að þessir menn óttist hegningarlögin, bæði hegningarákvæði kosningarlaganna og hin almennu hegningarlög. Og eg treysti því að vér eigum svo góða menn í kjörstjórnunum að vér þurfum ekki að óttast að þeir geri nokkuð það, sem væri ósamboðið heiðarlegum sæmdarmönnum. En vér verðum að gæta sóma alþingis til hins ítrasta. Þingmenn verða ekki flengdir eða sektaðir, þótt þingið brjóti lög með úrskurði sínum. Því að enginn dómari er skipaður yfir þingið til þess. Þingmenn verða að fara varlega og gætilega í þessu máli. Eg óttaðist lagabrot og vildi ekki byrja þetta þing með lagabroti. Þess vegna var eg með kosningu dr. Valtýs Guðmundssonar, er mér þótti eigi svo gölluð, að nægileg ástæða væri til að ónýta hana.

En nú vil eg enn síður setja annan mann inn á þingið með meirihluta atkvæðamagni þvert ofan í lög.