18.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (2518)

Umræður um kosningu Seyðisfjarðarkaupstaðar

Ari Jónsson:

Mig langar til að taka fram ástæðurnar fyrir atkvæðisgreiðslu minni í þessu máli, og tek því til máls, þó að málið hafi nú þegar verið allítarlega rætt hér.

Eg lít svo á, að þingið hafi í þessu máli lagaheimild að eins til þess að úrskurða um gildi kosningar; hvort sá sé löglega kosinn eða eigi, er yfirkjörstjórn hefir úrskurðað kosinn þingmann. Annað mál er það að þingið getur farið út fyrir lagaheimild þá, er það hefir og tekið sér vald til þess að úrskurða frekar í málinu.

Heimild sú, sem þingið hefir hér samkv. lögunum, er nákvæmlega ákveðin í 29. gr. stjórnskipulaga Ísl. og ýmsum ákvæðum í kosningalögunum. Samkv. því skal alþingi skera úr hvort þm. þess séu löglega kosnir. En lengra nær lagaheimildin ekki. Orðið »þingmenn« verður að skiljast svo að hér sé átt við þá, er úrskurðaðir hafa verið þingmenn af yfirkjörstjórn. Annars er úrskurður yfirkjörstjórnar um það, hver sé rétt kosinn þingmaður, tilgangslítill. Dómur eða úrskurður yfirkjörstjórnar verður að gilda, þar til þingið hefir ónýtt hann. En þegar þingið er búið að ógilda dóm yfirkjörstjórnar um það hver sé löglega kosinn, þá eru um leið ónýttir úrskurðir yfirkjörstjórnar við kosninguna, þar á meðal þeir úrskurðir yfirkjörstjórnar, hverjir atkvæðaseðlar séu gildir og hverjir ógildir. Til þess að þingið geti dæmt frekar í málinu eftir fullu sannsýni og réttlæti þyrftu eigi að eins allir ágreiningsseðlar, heldur allir kjörseðlar, að liggja fyrir þinginu, en samkv kosnl. koma eigi nema ágreiningsseðlarnir fyrir þingið. Það gæti því verið full ástæða til þess, að þingið færi eigi lengra í dómum sinum, en það hefir fulla lagaheimild.

Hverjar yrðu nú afleiðingarnar af því, ef þingið færi hér eigi lengra í dómum sínum, en lagaheimild er til, eða ef það færi út fyrir lagaheimildarsviðið og myndaði »Praxis« eða »Præcedens«, þar sem lagaákvæði vantaði um dómsvald þess í þessu máli.

Haldi þingið sér fast við lagaheimildina um dómsvald sitt og taki eigi til greina óskir síra Björns Þorlákssonar, eða úrskurði eigi neitt um kröfur hans, þá verður afleiðingin sú, að ný kosning fer fram í kjördæminu. Málinu er vísað til kjósenda aftur, svo að þeir fái að njóta réttar síns, þegar dómur yfirkjörstjórnar er ónýttur. Þetta virðist eigi mjög ranglátt. En spurningin verður þá, hvort réttar frambjóðandans, Björns prests Þorlákssonar, er fyllilega gætt. Það er að sjálfsögðu, að lögin hafa eigi gætt hans réttar fyllilega, og þarf þá breytingu með á þeim. En þá kemur að hinu atriðinu, hvort réttar frambjóðanda verði betur gætt með því að þingið taki sér vald í hendur og úrskurði frekar í málinu um hans kosningu.

Ef þingið tekur sér vald — og það getur þingið — til að mynda »præcedens«, þar sem lagaheimild vantar, og úrskurðar eigi að eins samkv. lögunum, hvort þingmenn séu löglega eða ólöglega kosnir, heldur dæmir líka um, hver af öðrum frambjóðendum kjördæmisins hafi réttmætasta heimtingu á að vera kjörinn þingmaður, þá er dómsvaldsvið þingsins orðið ærið umfangsmikið, takmörk valdsins óákveðin, svo að slíkt getur orðið varhugavert. Erlendis er á einum eða jafnvel tveim stöðum, sem eg veit til, gerður greinarmunur á ógildingarvaldi löggjafarþinga um kosningarúrslit, eins og lagaheimild alþingis veitir hér, og hins vegar úrskurðarvaldi um aðra frambjóðendur og atvik við kosninguna, sem á þessum stöðum eru í höndum sérstaks dómstóls. Þar hafa menn haft augun opin fyrir því, að óhyggilegt væri að láta löggjafarþingið hafa ótakmarkað dómsvald um kosningarúrslit. Ef þingið byrjaði þessa braut, þá yrði það að halda þeim »praxis« áfram, ef það vildi gæta sóma síns og samræmis í gjörðum sínum. En eg efast um það, að réttar frambjóðenda yrði betur gætt, ef þingið hefir úrskurðarvald ótakmarkað um kosningarúrslit, heldur en ef kjósendur fá að nota rétt sinn aftur, þegar ógiltur er dómur yfirkjörstjórnar um atkvæðaseðlana. Rangsleitni er hugsanlegt að gæti komið fram hjá þinginu, ekki sízt þar sem flest mál á þingi hafa oftast verið gerð að flokksmálum.

Ef eg kæmi til þings eftir nokkur ár með óviss kosningarúrslit og væri í minnihluta flokk, mundi eg miklu síður vilja eiga von á æðsta dómi úrslitanna hjá þinginu, heldur en hjá kjósendum mínum. Flokksfylgið gæti haft þau áhrif, að réttar míns væri betur gætt með því að skjóta málinu til kjósendanna, heldur en að hafa ótakmarkað dómsvald þingsins yfir höfði mér.

Eg álít því af þessum ástæðum, sem eg hefi til fært, að þinginu beri eigi að fara lengra, en það hefir lagaheimild til, og eigi því ekki að dæma frekar um þessi kosningarúrslit á Seyðisfirði, en það er þegar búið að gera.

Annað er það, að breyting á dómsvaldi um kosningarúrslit er nauðsynleg og mér lízt svo að hér sé þörf á nýjum lögum.