18.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

Umræður um kosningu Seyðisfjarðarkaupstaðar

Jón Magnússon:

Eg hefi eiginlega ekkert sérlegt að athuga við það sem fram hefir komið af hálfu minni hlutans.

Þar hefir ekkert það verið sagt, er eigi mótmæli sér sjálft, og þarf því ekki frekari mótmæla.

Minni hluti nefndarinnar hefir tilfært 41. gr. kosningarlaganna og vill með henni sanna að þingið hljóti að geta tekið kosningu síra B. Þ. gilda, því að annars séu þýðingarlaus ákvæði hennar um að öll kosningagögn skuli send til þingsins. En eg fæ eigi séð, hvernig nefnd grein verður skilin á þann veg.

Það er enginn vafi á því, að gögn þau, er send hafa verið þinginu í þessu máli, hafa haft hina mestu þýðingu fyrir kosninguna í Seyðisfirði 10. sept., því að vegna þeirra var kosning dr. V. G. gerð ógild.

Af ónýtingu á kosningu dr. Valtýs leiðir það, að þingmannssæti Seyðisfjarðarkaupstaðar verður autt, og ganga verður til nýrra kosninga. Háttv. þm. Dal. tók það fram, að þetta mál hefði þá ekki átt að koma nú til umræðu, — og það álít eg hverju orði sannara (Bjarni Jónsson: Eg hefi ekki sagt það, sem háttv. þm. Vestm. hefir eftir mér.) Málið var í rauninni afgreitt af þingsins hálfu og því ekki rétt að vísa því til nefndar að nýju. Verður að skoða það sem ástæðulaust meinleysi eða tillátssemi við síra B. Þ., að þetta var gert.

Eg las ekki upp allar hinar tilvitnuðu lagagreinar, því að eg þykist vita, að allir þingmennirnir kunni þær upp á sína 10 fingur. Það er að eins skilningurinn, sem á veltur. Og virðast þær þó ekki verða skildar nema á einn veg.

Minni hlutanum hefir ekki tekist að styðja mál sitt og hefði því ekki átt að hreyfa þessu frekar en komið var.

Það er ekki rétt, að úrskurður alþ. um ógildingkosningar dr. V. G. sanni það, að síra B. Þ. hafi þá fengið í raun og veru fleiri gild atkvæði við kosninguna en annars kemur það ekki málinu við. Og hefi eg þá ekki fleiru við að bæta.