18.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (2522)

Umræður um kosningu Seyðisfjarðarkaupstaðar

Kristján Jónsson:

Eg vil að eins gera örstutta athugasemd út af þeim orðum, sem háttv. þm. Vestm. sagði í þá átt, að mál þetta væri komið á ranga leið.

Eg lagði það um daginn til að málinu yrði vísað til nefndar einmitt af því, að þá þótti mér sanni næst, að báðar hliðar þess yrðu viðunanlega ræddar og að menn þá íhuguðu það með gætni og hlutdrægnislaust.

Nefndarálitið skýrir málið fyrir hv. þingmönnum og gerir það alt ljósara, og er þá mikið unnið.

Eigi vantaði kæru í þessu máli frá B. Þ., sem nauðsynlegan grundvöll þess, því að hann hafði einmitt sent þinginu rækilega kæru og kröfu um viðurkenningu til þingsetu, og þessa kæru hafði nefndin til meðferðar.

Nefndin ætti miklu fremur þakkir skilið fyrir starfa sinn en ákúrur.