19.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

Lausnarbeiðni varaforseta efri deildar

Ráðherra (H.H.):

Út af þeim ákúrum, sem varaforsetarnir hafa fengið fyrir að bera fram þessa umsókn til þess að koma í veg fyrir, að rifta meirihluta stöðu flokks síns hér í deildinni, þá skal eg taka það fram, að það er eg, sem stakk upp á þessari leið, af því mér þótti hún heppilegri, en að fresta fundum alþingis, meðan forsetarnir eru í utanför sinni. Ef þess vegna er komið með ákúrur út af þessu, þá verð eg að eiga minn part af þeim.

Þegar hans hát. konungurinn sendi skeytið um, að forsetar þingsins færu utan, þá kom stjórn flokksins til mín og bað mig um að gera ráðstafanir til þess, að konungur frestaði samkomum þingsins. Eg skýrði þeim þá frá að það gæti eg ekki, og þætti það heldur ekki rétt meðferð á landsfé. Hinsvegar gætu forsetarnir sjálfir frestað fundum. En eg benti þeim á að hægt væri að komast hjá vandræðunum með því, að forsetarnir legðu niður forsetastöðuna og svo mætti kjósa forseta úr minni hlutanum. Og þetta get eg ekki séð, að sé rangt eða ólögmætt.

Hv. 5. kgkj. skírskotaði til 35. gr. stjórnarskrárinnar og 7. gr. þgskp. En stjórnarskráin segir ekki annað um forsetana en það séu deildirnar sjálfar sem kjósa forseta sína og varaforseta hvor um sig og sameinað þing fyrir sig, en þar er ekkert tekið til um það, til hve langs tíma kosningin sé. Aftur á móti er sagt í 7. gr. þgskp, að kosning forseta og varaforseta og skrifara gildi fyrir allan þingtímann það ár. En það þarf ekki að tákna annað en það, að kosningin sé ekki bundin við vissan part af þingtímanum, og gat verið sérstök ástæða til þess að taka þetta fram, því að það mun hafa verið þingskaparegla í þjóðþinginu í Danmörku, að forsetakosning gilti að eins til 14 daga eða 4 vikna í senn, um það leyti sem okkar þingsköp voru sett 1875. Á sama hátt stendur í stjskr., að þingkosning gildi til 6 ára, og aukakosningar til loka kjörtímabilsins, en þó er engan veginn útilokað, að menn geti lagt þingmensku sína niður áður, eins og kunnugt er.

Vegna þess að ekki tjáir að þingdeild sé forsetalaus, verður þó hér til að koma samþykki deildarinnar. En hvort til þess útheimtist að eins einfaldur meiri hluti eða kvalificeraður meiri hluti, sem til þingskapaafbrigða, virðist mér vafasamt. Þó þykir mér sennilegra, að hér þurfi að eins einfaldan meiri hluta, fyrst þeir eru kosnir með einföldum meiri hluta, og er það eðlilegt, að sá, sem hefir bundið, geti líka leyst. Mér virðist það og eðlilegast, að ákvæði 53. gr. þingskapanna eigi að eins við um afbrigði eða undanþágur frá hinum venjulegu málameðferðarreglum, en ekki um slíkar ákvarðanir, sem þessa. En það liggur undir háttv. forseta að úrskurða, hvort hér er um þingskapaafbrigði að ræða eða ekki.

Eg verð að halda fast við þá skoðun að þessi leið sé bezt, því að hún mundi baka landsjóði minstan kostnað, ef háttv. meiri hluti ómögulega þykist geta átt undir því, að hafa um tíma jafnt atkvæðamagn hér í deildinni, eins og minni hlutinn á þingi.

Háttv. 1. varaforseti gat um að nokkuð líkt hefði komið fyrir í Danmörku og er það rétt. Í Danmörku var þetta gert, af því að sá flokkur, sem forsetinn var í, var orðinn svo fámennur, að það þótti ekki rétt að svifta hann atkvæði forsetans. Og forseti sagði af sér án þess að leita fyrst til þingsins, og næsta dag setti hann kosning nýs forseta á dagskrá.

Eg get fyrir mitt leyti ekki séð, að neitt vinnist fyrir minni hlutann með því að setja sig á móti þessu, og mér finst það ekki rétt af honum að gera það, vegna stöðu hans. Meiri hlutinn hefir það tvent, sem er í valdi hans, að láta engin þau mál koma hér til atkvæða á meðan, sem flokkaskifting gæti verið um, eða meiri hlutanum gæti verið sárt um frá sínu flokkssjónarmiði, enda geta forsetarnir frestað fundum þingdeildanna. Mér finst þetta því einungis stífni, og ef eg ætti atkvæðisrétt hér í deildinni, þá mundi eg hiklaust greiða atkvæði með beiðninni.