19.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (2535)

Lausnarbeiðni varaforseta efri deildar

Jens Pálsson:

Af öllu því, sem talað hefir verið á móti lausnarbeiðni okkar varaforseta, hefir ekkert komið illa við mig annað en það, er háttv. 5. kgk. þingm. taldi slíkt stjórnarskrárbrot. Það er gersamlega langt frá sannleika, eftir þeim skilningi sem eg get lagt í 35. gr. stjórnarskrárinnar. Auðvitað þykir líklega minna mark takandi á skilningi okkar, sem erum ólöglærðir; en við verðum þó að fara eftir okkar skoðun.

Eftir 35. gr. á hver þingdeild um sig að kjósa forseta sinn og varaforseta; og eins hið sameinaða alþingi að kjósa sjálft forseta sinn og varaforseta. Þetta eitt liggur í greininni; en þar með er úti lokað, að sameinað þing kjósi forseta fyrir deildirnar, og eins hitt, að stjórnin tilnefni, kjósi eða skipi forsetana. Annað en þetta segir greinin ekki, hvorki beint né óbeint, eins og hæstv. ráðherra hefir sýnt fram á. Þar við er engu að bæta. — En hvað snertir 2. og 4. gr. þingskapalaganna, vil eg taka það fram, að eg get ómögulega fallist á þá skoðun, að þessar greinar geri þingdeildunum ómögulegt að samþykkja forsetaskifti, á meðan á þingtíma stendur. Þær innibinda ekki í sér neina fyrirskipun um, að forsetarnir skuli sitja þingtímann út, heldur það eitt, sem beint er sagt, að kosningin gildi allan þingtímann. Forsetarnir eru því óafsetjanlegir, en þeim er hvergi bannað að segja af sér með samþykki deildarinnar eða þingsins. Deildin hlýtur að hafa vald til að veita slíka beiðni. — Eg hygg að þessi skilningur sé réttur, og það því fremur, sem alveg sams konar ákvæði gildir um eina vissa nefnd í þinginu, nefndina til þess að prófa þau kjörbréf, er fyrst koma fram eftir að hinni almennu prófun er lokið, og rannsaka kosningar, er þingið hefir frestað að viðurkenna gildar, eða kærur er snerta kosningar, er þegar eru teknar gildar. Nú skulum við hugsa okkur, að kærur kæmu fram yfir kosningu þeirra þingmanna, sem eiga sæti í þessari nefnd. Hvernig fer þá? Eiga þeir þá ekki að geta fengið lausn úr nefndinni? Eða eiga þeir að verða neyddir til að fjalla um kærur yfir kosningu sjálfra þeirra til þingmensku. — Auk þess veit eg ekki betur, en að það sé gömul venja í þinginu, að nefndarmenn, er þess óska, fái leyfi til að segja af sér, og aðrir eru kosnir í þeirra stað. þetta hefir oft átt sér stað og alt af verið talið leyfilegt.

Það eru hörð orð, að kalla það lögbrot og stjórnarskrárbrot, að leyfa varaforsetum að segja af sér. Í augum og að dómi almennrar heilbrigðrar skynsemi eru slík ummæli fjarri öllum sanni, hvað sem kann að vera í augum og að dómi hinnar sérstaklegu lögfræðislegu skynsemi.

Það hefir verið sagt hér í dag, að kosningamar í sumar hafi eingöngu snúist um sambandsmálið. Ómótmælanlega snerust þær aðallega um það mál, en eg hefi orðið þess var, að kosningarnar snerust meðfram um ýmislegt fleira, einkum hið fjárhagslega ástand landsins. Fjárhagshorfurnar lágu þjóðinni þungt á hjarta og var víða tekið tillit til stefnu þingmannaefna í þeim efnum.

Háttv. 5. kgk. þingm. mintist á það, að vér meirihlutamenn hefðum sjálfir skapað þessa afstöðu flokkanna í deildinni. Það er rétt, að við vorum ekki nógu varkárir í fyrstu og höfðum ekki búist við þeim óvænta atburði, að konungur kallaði forsetana á sinn fund. En þar sem háttv. 4. kgk. þingm. þótti undarlegt, að við skyldum ekki gera ráð fyrir því, þá er þar til að svara, að þetta er í fyrsta sinn, er slíkt kemur fyrir, að forsetar þingsins eru kvaddir á konungsfund á miðjum þingtíma; og hafa jafnvel heyrst raddir um það, að ekki væri unt að sinna slíku útboði konungs. Það er því fullkomlega rétt, að kalla þetta óvæntan atburð, en auðvitað er það atburður, sem sjálfsagt var að beygja sig fyrir.

Þessi óvænti atburður raskar hlutföllum flokkanna í deildinni, ef ekki er við gert. Eins og hæstv. ráðh. hefir tekið fram, er það viðurhlutamikið að orsaka tafir á störfum deildarinnar. En hinsvegar verður varla komist hjá því á annan hátt en þennan, sem við förum fram á. Því að þótt eiginleg flokksmál séu ekki mörg á þinginu, þá geta þó æði mörg mál komið fyrir slík, er meiri hlutinn vill ekki eiga á hættu, að verði feld fyrir honum. Og það er ekki sanngjarnt að krefjast þess, að meiri hlutinn leggi áhugamál sín í þá hættu.

Hvað það snertir, að beiðni okkar sé ónotaleg ákomu fyrir minni hlutann og sýni það, að við álítum hann, eða konungkjörna liðið, samvizkulausa og harðsnúna sveit, þá eru slík ummæli alveg ástæðulaus. Við fullyrðum einmitt, að minnihlutamenn séu samvizkusamir menn, sem vilja gera skyldu sína; og við göngum út frá því, að þeir, ekki síður en við, hafi siðferðislegt þrek til að fylgja fram sínum skoðunum á allan leyfilegan og löglegan hátt. Svo að í þessu felst miklu fremur lof en last um minni hlutann.

Eg verð að halda því föstu, að bæði eg hafi tekið fram ýmsar verulegar ástæður fyrir beiðninni, og hæstv. ráðherra aðrar hreint ekki óverulegar. Mörg mál hljóta að tefjast til muna, og það hefir í för með sér útgjaldaauka fyrir landsjóð, auk þess sem tafir koma sér mjög illa í sumum málum t. d. fjárlögunum. Háttv. 4. kgk. þingm. sagði að vísu, að þau gætu gengið sinn gang alt að einu; en hann gat ekki bent á aðra leið til þess en þá, að láta hlutkesti ekki ráða um kosningu eins mannsins í fjárlaganefndina, sem þingsköpin þó bjóða skýlaust. Þetta er gott boð frá hans hálfu og eg efast ekki um, að hann vilji standa við það.

En eg efast um að þetta væri lögleg aðferð; og ef nú svo færi að það álitist ekki forsvaranlegt, að kjósa nefndina öðru vísi en eftir vanalegum þingskapareglum, þá gæti leitt þar af, að minni hlutinn hefði 3 menn í nefndinni, en meiri hlutinn að eins 2, — en það getur hann ekki gert sig ánægðan með.

Það hefir komið fyrir áður á þingi, að þingdeild hefir kosið fjármálanefnd og fjárlögunum siðar verið vísað til þeirrar nefndar. Ef til vill mætti fara þessa leiö nú, með miklum afbrigðum frá þingsköpum og aukafundum, ef það kæmi fram í kvöld, væri rætt á deildarfundi á morgun og nefndin kosin á aukafundi annaðkvöld. Þetta er eini vegurinn til þess að fjárlögin gangi áfram óhindruð, ef beiðni okkar verður ekki tekin til greina. — Hin leiðin er varla forsvaranleg, að þingið fari að ákveða, að hlutkesti skuli ekki fara fram, þar sem lögin fyrirskipa hlutkesti.

Eg verð að biðja háttv. minni hlutann að útrýma því úr huga sér, að vér séum að gera honum nokkrar getsakir í þá átt, að hann vilji ekki koma fram þinglega, drengilega og réttlátlega. Okkur hefir ekkert slíkt til hugar komið. Það særði mig dálítið, er eg heyrði háttv. 5. kgk. þingm. segja, að það liti út fyrir, að við gerðum ráð fyrir óréttlátri framkomu eða gerræði frá þeirra hálfu. Þessi ummæli gefa mér ástæðu til að lýsa því yfir að hvernig sem fer um lausnarbeiðni okkar, þá treystum við minni hlutanum til að koma fram drengilega, eins og við og munum reyna að koma fram sem samvizkusömum meiri hluta sæmir.