19.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (2536)

Lausnarbeiðni varaforseta efri deildar

Sigurður Stefánsson:

Þessu máli hefir verið mætt með rósemi af öllum nema háttv. 5. kgk. þingmanni Og það er heldur ekki láandi, þó að hann, sem er svo alþektur að réttlæti og göfugmensku, sem allir vita, geti ekki hlustað rólegur á að slíkt mál sé fram borið, úr því að hann álítur að hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða. — En ef það er rétt, að þetta sé stjórnarskrárbrot, þá bitna ákúrur hans mest á forseta deildarinnar, því að þá var það skylda hans að vísa málinu frá.

En eg vona, að engum, sem athugar málið með ró og stillingu, geti komið til hugar, að nokkurt stjórnarskrárbrot felist í því, að leyfa varaforsetum að segja af sér. Eg hefði ekki borið slíkt fram, ef mér hefði komið til hugar að eg væri að fremja stjórnarskrárbrot. Eg ætla ekki að fara neitt út í lögskýringar hins háttv. 5. konungk. þingm. Það fer hér sem oftar, að hans lögskýringar fara fyrir ofan garð og neðan hjá minni skynsemi, sem eg verð þó að álíta nokkurn veginn heilbrigða.

Ósk okkar varaforsetanna er bygð á Því, að meiri hlutinn fái að halda eðlilegu atkvæðamagni á þinginu. Því að það er óneitanlega eðlilegast, að sá flokkur, sem er í miklum meiri hluta á þingi, hafi einnig atkvæðamagn í hvorri deildinni fyrir sig; og bæði rétt og skylt, að nota til þess öll lögleg meðul. Það stendur nú svo á, að utanstefna forsetanna getur orðið til þess, að raska atkvæðahlutföllum á þingi, ef ekkert er að gert. Það hefir vitanlega ekki verið tilgangur hans hátignar konungsins að svo færi, og það er fjarri mér að vilja á nokkurn hátt tala óvirðulega í hans garð. En halda hinir háttv. minnihlutamenn, að þeir gjöri konungi þægt verk með því að stuðla til þess, að svo óheppilegar afleiðingar verði af útboði hans? Nei, honum mundi eflaust falla illa ef hann heyrði það, að hans útvöldu menn vildu með ofurkappi draga atkvæðaaflið úr höndum meirihlutans, sem hefir löglegt umboð meiri hluta þjóðarinnar.

Það undraði mig, að heyra háttv. 5. kgk. þm. segja það nú, að sambandsmálið væri eina flokksmálið á þingi. Nálega á hverjum deildarfundi hefi eg heyrt þennan sama háttv. þm. segja að þetta og þetta sé flokksmál. En nú alt í einu er ekkert flokksmál til nema sambandsmálið.

Háttv. þm. kallaði það skyssu af meirihlutanum, að skipa forsetasætin svo, sem hann hefir gjört. Ef það er skyssa, þá hefir meirihlutinn á fyrri þingum gert sömu skyssu; hann hefir gefið fordæmið, því að hann kaus alt af forsetana úr sínum flokki, alveg eins og við gerðum nú, og alveg eins og eðlilegt er að hver meirihluti geri.

Því var dróttað að okkur, að við álitum minnihlutann skipaðan misyndismönnum. Þetta er fjarri öllum sanni. Sem gamall efrideildarmaður get eg borið um það, að í hóp hinna konungkjörnu þingmanna hafa, að minsta kosti alt fram að þessu ári, verið þeir heiðarlegustu og beztu menn, sem eg hefi getað á kosið. Hitt er eðlilegt og sjálfsagt að búast við því, að hver flokkur haldi sínum málum fram til hins ítrasta.

Hæstv. ráðherra tók fram merginn málsins, þann að ekki megi gjöra neitt, er valdi þingtöfum. Það er skylda þingsins, að demba ekki meiri kostnaði á þjóðina en nauðsynlegt er, undir svo slæmum fjárhagslegum kringumstæðum, sem nú eru í landinu. Einmitt til þess að komast hjá töfum og þar af leiðandi kostnaði, höfum við komið fram með beiðni um lausn varaforseta. En verði hún ekki tekin til greina, hljótum við þó að gæta réttar meirihlutans, og þá getur farið svo, að þingið tefjist lengri eða skemmri tíma.

Háttv. 4. kgk. þm. reyndi að halda sér við efnið. Hann sagði, að það hefði verið í fullu samræmi við þingsköp Dana, að Trier sagði af sér. En eg held þó að það sé ekki rétt, því að sú grein í þingsk. Dana er í samræmi við vor þingsköp. Eg hefi dönsku þingsköpin liggjandi hér á borðinu. Þau eru nákvæmlega eins og hjá oss, svo að ekki hefir Trier haft stuðning í þingsköpunum. Háttv. 4. kgk. þm. sagði, að þó að flokkarnir stæðu 6:6, hefðum vér meirihl. þó í fullum höndum við minnihl. (Stgr. Jónsson: Í fjárlögunum). Nei, einmitt ekki í fjárlögunum. Það er að eins að við getum drepið hver fyrir öðrum. Og eg vil spyrja háttv. 4. kgk. hvort honum þætti það ákjósanlegt. Eg vil fyrir mitt leyti ekki vera með til að innleiða slíka pólitík. Vér meirihl. höfum þá skyldu gagnvart þjóðinni, að varðveita það vald, sem hún hefir fengið oss. En hins vegar vildi eg skjóta því að háttv. 4. kgk., að því víkur nokkuð undarlega við, að það skuli vera einmitt konungkjörna sveitin, sem rís upp til að andæfa þessu máli og stofna vandræði, hún sem einmitt ætti að reyna að leysa þau og hafa næma ábyrgðartilfinningu gagnvart landinu, en það er alt annað uppi á teningnum. Við höfum gert það sem okkur var skylt gagnvart þjóðinni og ef það ekki hefst fram, er það á ábyrgð minnihl.; ábyrgðin hverfur af okkur á hina.