24.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (2562)

142. mál, skipun læknishéraða Flateyrarhérað

Skúli Thoroddsen:

Eg get ekki séð, að þörf sé á því, að vísa þessu máli til nefndarinnar. Það hagar svo til í Vestur-Ísafjarðarsýslu, að læknirinn er búsettur á Þingeyri, og þess vegna mjög erfitt fyrir ýmsa, einkum menn úr Súgandafirði að vitja hans þangað, þar sem þeir þurfa þá að sækja yfir 2 heiðar, og yfir 2 firði, nefnil. Klofningsheiði, sem er há, og mjög ill yfirferðar, fara síðan yfir Önundarfjörð, þaðan yfir Gemlufellsheiði, og síðan yfir Dýrafjörð. — Að vetrinum geta komið fyrir ísalög á Dýrafirði, sem banna alla yfirferð, og þá er ekki annars kostur, en að krækja inn fyrir fjörðinn, sem er mjög langur og erfiður vegur.

Það hefir lengi verið ósk manna í Vestur-Ísafjarðarsýslu, að læknir sæti og á Flateyri. Læknishérað þetta mundi einnig verða all-fýsilegt fyrir lækna, og stæði fráleitt lengi óveitt, þar sem það yrði hægt hérað, en þó all-fjölment; til Flateyrar er og mikil sigling af útlendum skipum, sem oft þurfa læknis við.

Eg vona því, að háttv. deild taki frumv. vel, þar sem mjög mikil sanngirni mælir með því, og samþykki ekki, að vísa málinu til nefndarinnar, sem er með öllu óþarft, og að eins til tímatafar.