18.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Ráðherra (H. H.):

Eins og tekið er fram í athugasemdum stjórnarráðsins við frumv. þetta, verður það að álítast nauðsynlegt, að gefin sé lagaheimild til alvarlegra ráðstafana til þess, að friða skóga og kjarr, ef það annars er talið nauðsynlegt að friða skógleyfarnar gegn eyðilegging og landið gegn uppblæstri, hvað þá ef von á að vera um græðslu nýrra skóga. Skógræktarstjórinn hefir tekið það fram, að eitt af því, sem valdi mestri eyðing á skógi og kjarri, sé það, að fé sé beitt í þeim á vetrum, og hefir enda farið fram á, að sauðbeit í þeim sé bönnuð á tímabilinu frá 1. október til 1. júní. í öðru lagi hefir hann bent á það, að skógar og kjarr sé víða skemt með því, hvernig höggvið sé, sem víða stafi af vankunnáttu; hins vegar telur hann enga ástæðu til þess að banna högg í skógum eða kjarri, því ef skynsamlega er höggvið, geri það fremur að bæta skógana en skemma. Ennfremur hefir hann vakið athygli á því, að mjög mikil hætta stafi af því fyrir gróður landsins, ef rifið er lyng eða mosi, og vill hann láta banna það að öllu með lögum.

Það hefir þó ekki þótt tiltækilegt, að banna með lögum alla sauðfjárbeit í skógum og kjarri frá hausti til vors, því slíkt bann mundi rýra tilfinnanlega eignarrétt manna, þar sem vetrarbeit í skógum og kjarri eru aðalkostir margra jarða, og bann gegn beitinni mundi gera sumar jarðir jafnvel lítt byggilegar eins og búskap nú er hagað. Hins vegar virðist mega með nokkrum árangri gefa ákvæði um högg í skógunum og meðferð þeirra að öðru leyti, sérstaklega eftir að skipaðir eru skógræktarstjóri og skógarverðir, sem sérstaklega þekking hafa á þessum málum, enda er það aðaltilgangurinn með ákvæðum lagafrumvarps þessa, að fá þeim vald í hendur, til þess að þeir geti framkvæmt ráðstafanir þessu viðvíkjandi, sem ekki geta talist ganga of nærri umráðarétti eigenda og notenda. Loks hefir það ekki þótt athugavert, að banna með öllu að rífa lyng og mosa; það hefir þrásinnis og úr ýmsum áttum verið kvartað yfir því spelli, sem af rifi þessa gróðurs geti stafað, og það verður ekki séð, að þarfir almennings útheimti það, að þessi illa meðferð á landinu sé látin óátalin. Eftirlitið með því, að ákvæðum frumvarpsins verði hlýtt, er ætlast til að hvíli á skógræktarstjóra og skógarvörðunum með aðstoð hreppstjóra. Skógræktarstjóra er í því skyni gert að skyldu, að fara um landið til eftirlits, og skógarvörðunum, hverjum í sínu umdæmi; skógræktarstjóri hefir stungið upp á, að kosnar væru nefndir í hverri sýslu, til þess að hafa eftirlitið og gera aðrar ráðstafanir viðvíkjandi skógum og kjarri, en það mundi verða bæði vafningasamt og kostnaðarsamt, enda naumast gera eftirlitið tryggilegra.

Um hinar einstöku greinar frumvarpsins leyfi eg mér að vísa til hinna prentuðu athugasemda.