26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (2571)

44. mál, skipun læknishéraða

Jón Magnússon:

Eg hafði ekki búist við því, að þetta frumv. myndi komast svo langt hér í deildinni. Það er að minni hyggju svo fráleitt. Eg skil ekki heldur, að það sé mikill ávinningur fyrir héraðsbúa, því að nyrðra læknishéraðið yrði að minsta kosti að jafnaði læknislaust. Nú eru í Strandahéraði um 1400 manns og því á nú að skifta í tvent, í öðru héraðinu verða þá um 500 manna, en í hinu 900.

Annar læknirinn býst eg við, að mundi sitja í Reykjarfirði eða við Gjögur, en hinn á að sitja á Hólmavík. Eg skal nú ekki fara að fást um það, þótt takmörkin milli héraðanna séu óheppileg, úr því læknarnir eigi að búa þannig, en hitt er mjög alvarlegt íhugunarefni, að háttv. meiri hluti ætlar nú að bæta við þremur nýjum læknishéruðum á vesturtanga landsins, svo að á tanga þessum, er afmarkast af línu dreginni úr Gilsfjarðarbotni í Bitrufjarðarbotn, verða 12 launaðir embættislæknar. Og með því að ekki verður séð, að nein ástæða eða sanngirni sé til að hafa fleiri héraðslækna að tiltölu þar en annarsstaðar á landinu, — ferðalög eru þar ekkert örðugri en til að mynda á Austurlandi, — þá hlýtur það að fara svo, að héraðslæknum verði fjölgað annarsstaðar, svo að talan komist á næstu árum upp í 90 að minsta kosti eða launuðum embættislæknum fjölgi um þriðjung í minsta lagi.

Þá ber þess og að gæta, að þótt í svona löguð héruð kynni að takast að fá lækni sem snöggvast eru litlar eða engar líkur til að svo yrði framvegis, svo að afleiðingin af slíkri fjölgun læknahéraða verður að eins aukin útgjöld fyrir landssjóð, án nokkurrar bótar fyrir héraðsbúa.

Það hefir vitanlega enga þýðingu, að vera að tala um þetta. Háttv. meiri hluti hefir ákveðið, að þetta skuli fram ganga og eru þessi mál ófyrirsynju gerð að flokksmáli, og verður ranglætið því meira, sem felt var hér í deildinni nýlega frumv. um að stofna sérstakt læknishérað í Norðfirði, þar sem þó engum getur dulist, að miklu meiri ástæða var til að stofna læknishérað eða láta lækni sitja.

En að fara að búa til læknishérað í nyrðra hluta Strandasýslu fyrir 500 manns eða líklega að eins 400 manns nær engri átt.

Þá væri nær að senda lækni út í Grímsey.