30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (2579)

44. mál, skipun læknishéraða

Hannes Hafstein:

Eg mótmæli því, að hinum háttv. meiri hluta hafi verið borið neitt það á brýn í þessu máli, er þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir ekki játað sjálfur; hann hefir sagt, að þau »kjördæmi« yrðu að sitja í fyrirrúmi í læknaskipuninni, sem að dómi meiri hlutans hefðu gert sig þess verð með framkomu sinni að vera styrkt.

Ásökunum þeim, er komið hafa fram gegn fráfarandi stjórn og núverandi minni hluta um sams konar pólitík áður, hefir verið mótmælt af háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) og skírskota eg til þess, sem hann hefir sagt. Lýsi eg ummæli þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um þessi atriði ósönn, og skora á hann að nefna dæmi máli sínu til sönnunar, ef hann vill ekki bera það ámæli, að fara vísvitandi með ósannar sakargiftir.

Af öllum þeim framfarafyrirtækjum, er ráðist hefir verið í undir fráfarandi stjórn, veit eg ekki eitt einasta, sem um verði sagt með réttu, að meiri hlutinn hafi þar dregið taum þeirra kjördæma, er hann hafði stuðning af. Eða kom slíkt fram við ritsímalagninguna t. a. m.? Nei, þar var vissulega eins farið með þau kjördæmi, sem mest og harðvítugast börðust á móti ritsímanum, eins og þau sem voru honum mest fylgjandi. Þar var sannarlega látið »rigna jafnt yfir rangláta og réttláta«.

Það væri óskandi, að h. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hætti einhverntíma þessari leiðinlegu iðju, að vera að bregða mótstöðumönnum sínum um hans eigin háttalag, sem hann nú hefir játað hér í deildinni; það er ekki ný bóla hjá honum. Það hefir til langframa verið leikið í blaði hans og fleiri blöðum sama flokks; það hefir blátt áfram verið hernaðaraðferð þeirra, að úthúða mótflokknum fyrir hitt og þetta, sem þau og þeirra menn einmitt sjálfir hafa verið sekir í, en mótflokkurinn ekki, og er víst eldgamalt bragð að kenna öðrum sína eigin klæki. En það er ljótt að heyra þetta hér í þingsalnum, og mun sú afsökunin fyrir flokkshlutdrægni eftirleiðis reynast afslepp og skammæ.