30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (2580)

44. mál, skipun læknishéraða

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

Mér kom það ekki óvart, því að við því má altaf búast, ef sannleikurinn er sagður, sem er biturt vopn, að ýmsum gremjist svo, að þeir leyfa sér ekki að eins að koma fram með fyrirþráttanir heldur og ýmsar getsakir í garð andstæðinga sinna, og kom þetta mjög glögt í ljós í ræðum háttv. þm. Eyf. og S.-Múl. (Hannes Hafstein: Eg skora á þm. að nefna dæmi) Fyrir mér stendur það t. d. ljóst, að á síðasta þingi hefði Nauteyrarhérað orðalaust verið samþ., ef flokkurinn, sem þá réð hefði talið Norður-Ísafjarðarsýslu meðal sinna kjördæma. Sama er og að segja um prestakallaskipunina í Norður-Ísafjarðarsýslu, hún hefði orðið öðruvísi, ef eg hefði ekki átt þar í hlut.

Hinn fyrri háttv. meiri hluti gerði það og, til þess að bæta einum þm. við flokk sinn, að skera ? hluta úr einu kjördæminu, Ísafjarðarsýslu, og stofna þar nýtt kjördæmi.

Þetta eru nú aðeins fádæmi, en þau eru mýmörg til, ef út í það væri farið; enda ætla eg ekki að fara að halda hér »eldhúsdag«; það hefir þegar verið gert, svo að ólíklegt er, að fyrverandi stjórn óski nú að fá frekari skil, eða að farið væri nú enn einu sinni að í rifja upp þá hlutdrægni, er komið hefir fram af hennar hálfu í veitingum sýslana og embætta, síðan hún tók við völdum.

Skal eg svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en háttv. þm. ættu ekki að taka upp á því að þrátta og þræta fyrir, þótt einhver finni sig knúðan til að segja sannleikann — hann getur þá orðið enn bitrari.

Ef litið er á málefnið, er hér liggur nú fyrir, þá er ekki ástæða til að áfellast meiri hlutann, þótt hann að þessu sinni hafi látið ýms kjördæmi, sem honum eru náin, sitja fyrir, enda þótt einnig hefði verið þörf annarstaðar; en þörfin getur og verið misjafnlega brýn. Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) gat þess, að óskir þeirrar sýslu myndu hafa verið uppfyltar, ef hún hefði talist til meiri hlutans, eða þm. hennar. Eg skal nú að vísu játa, að þörf geti verið á þessum breytingum í Suður-Múlasýslu, en það hefir víðar komið fram lík krafa, t. d. úr Skagafirði. Og það sjá allir, að ekki er hægt að gera öllum úrlausn í einu. Hins vegar skal eg geta þess, að ef eg lifi það að eiga hér sæti á næsta þingi, þá mun eg verða þessari breytingu í Suður-Múlasýslu hlyntur. (Jón Jónsson S.M. og Jón Ólafsson: því ekki nú?) Það má í rauninni virðast nóg, að nú eru stofnuð 3 ný læknishéruð, það er ekki hægt að vænta meira í bráðina.

Skal eg svo ekki fara frekar út í þetta, en þar sem háttv. 1. þm. S.-M. (.1. J.) hefir verið að slá þessu og þessu föstu hér í deildinni í dag, þá leyfi eg mér einnig að slá því föstu, að það er hans ummælum að kenna, að fráfarandi stjórn hefir nú verið sagt dálítið til syndanna.