18.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (2617)

Fundatími í Nd.

Björn Jónsson:

Eg vil leyfa mér að vekja máls á einu atriði utan dagskrár.

Allmargir meðal þingmanna, einkum þeirra, er hér eiga heima í bænum, hafa óskað eftir, að þingfundir yrðu framvegis síðari hluta dags, með því að margir þeirra hafa ýmsum öðrum störfum að gegna fyrri hluta dagsins, svo sem kenslu o. fl. Utanbæjar þingmönnum mun liggja þetta mál í léttu rúmi, og er því vænst að þeir verði því ekki mótfallnir. Flestum kemur líka betur að hafa allan fyrri helming dagsins í sinni hendi, annað hvort til undirbúnings eða annars þvílíks.

Eg ætlast ekki til, að þetta mál verði útkljáð nú þegar, heldur bíði næsta fundar.

Í Danmörku er að vísu sá siður, að fundir séu fyrri hluta dags, en hitt viðgengst í öðrum löndum, t. d. Englandi, að þeir séu síðdegis — og höfum vér þar fyrir oss elzta og frægasta þing heimsins (Parlamentið).