28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (2621)

Um skipun ransóknarnefndar

Jón Jónsson S.-Múl.:

Það er mér sannarlegt gleðiefni að heyra það af vörum hæstv. ráðherra (B. J.), að ekki búi neitt annað og meira undir þessari eftirtektarverðu stjórnarráðstöfun, og að hér sé eigi að ræða um neina tortryggni eða grunsemd frá hálfu stjórnarinnar. En eg hefði þó óskað, að hæstv. ráðherra hefði skýrt þetta enn betur.

Eg er því miður hræddur um, að jafnvel nú þegar sé búið að hljótast ilt af þessu. Um miðjan dag í gær mun hafa verið komin fregn um þetta til útlanda, og þar er traustið á oss og stofnunum vorum ekki svo glæsilegt nú, að það megi við nokkrum hnekki.

Eg vil leyfa mér að benda á, að orðalag skipunarbréfs þessarar rannsóknarnefndar gefur tilefni til, að þeim er lesa það, muni koma í hug, að verra búi undir. Nefndinni er þegar boðið að ransaka allan hag bankans, og svo eru fyrirmæli um einstök atriði rannsóknarinnar, og orðalaginu er svo háttað, að flestum mun t. d. detta í hug, að hér sé um meira en litla grunsemd að ræða, að því er snertir ónýting gömlu seðlanna. Það er líkast því, að hér væri verið að leggja grundvöll til sakamáls-rannsóknar; og loks á ransóknin að ná til umliðinna ára, líklega frá byrjun bankans.

Þetta er of djúpt tekið í árinni, og það er víst, að af þessu getur bankanum og landinu stafað tjón erlendis, hvað sem verður hér heima.

Annars vildi eg vita eftir hvaða heimildum hæstv. ráðherra (B. J.) mælir svo fyrir, að starfsmenn bankans sé skyldir að svara öllum spurningum, sem nefndin kann að leggja fyrir þá. Það vald hélt eg að þingið eitt gæti gefið slíkum nefndum.

Þar sem nefndin á að vinna verk sitt mjög nákvæmlega, hlýtur það að taka langan tíma og verða nokkuð dýrt. Eg vildi gjarna fræðast um það, hverjum sé ætlað að borga verkið.