24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (2651)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Pétur Jónsson:

Það er sérstaklega eitt atriði, sem eg ætla að minnast á, það er búnaðarskólarnir. Mér finst þar eins og raunar í öllum okkar skólamálum, að eitt reki sig á annars horn. Áður voru búnaðarskólarnir fjórðungaskólar og haldið uppi af héruðunum með styrk úr landssjóði, 2,500 kr. til hvers á ári að jafnaði.

Á fjórðungaskólunum var kenslan bæði verkleg og bókleg, og voru skólabúin rekin upp á skólanna kostnað, og urðu þeir því að binda sig við þann nemendafjölda, sem hæfilegur var fyrir skólabúið. Skólarnir bygðust á því, að nemendurnir hefðu ársvist í skólunum, og varð þá vinnukrafturinn oft að lélegum notum, og mátti helzt ekki vera fleiri en sem svarar 12 nemendum á hverjum skóla, til þess að skólabúin gætu borið það.

Skólarnir voru sveltir upp af fjárskorti, skólabúskapurinn í hálfgerðu basli og kenslukraftar ónógir. Þá myndaðist sú skoðun, einkum meðal yngri búfræðinga, að heppilegra væri að hafa skólana að eins tvo, láta þá eigi hafa annað en bóklegu kensluna að annast beinlínis, og gera þá sæmilega úr garði. Þessa stefnu tók milliþinganefndin, sem skipuð var í landbúnaðarmálinu 1904. Var frumv. frá henni lagt fyrir þingið 1905 um stofnun 2 landbúnaðarskóla, er tækju á móti 40 nemendum hvor. Voru það fleiri nemendur en allir 4 fjórðungsskólarnir gátu tekið til samans. Jafnframt þessu plani var það ákveðið, að verkleg kensla yrði fengin að sumu leyti á skólajörðinni sjálfri, því þar átti að reka búskap, er gæti haft verklega kenslu á hendi. Sömuleiðis var skírskotað til þess, að tvær gróðrarstöðvar væru til, og að plægingarkensla færi fram í Brautarholti. Nefndin áleit því alla þessa staði sem sjálfkjörna til verklegrar búnaðarkenslu. En jafnframt því var gert ráð fyrir, að hafa hina tvo skóla, Ólafsdalsskólann og Eiðaskólann til þess að veita mönnum verklega kenslu og styrkja þá til þess af landsfé. Þannig var þá séð fyrir miklu meiri og betri verklegri kenslu en á búnaðarskólunum fjórum. Það var auðvitað, að til þess að þessir tveir nýju bændaskólar kæmu að notum, yrðu þeir að vera sem bezt settir fyrir landshelmingana. Nefndin ákvað ekkert um það, hvar skólana skyldi setja, nema að annar væri sunnanlands, hinn í Norðurlandi. En alþingi sló því föstu, að annar þeirra skyldi vera á Hvanneyri en hinn á Hólum. En að þetta hafi ekki verið als kostar heppilega ráðið um skólann á Norðurlandi, er nú komið í ljós. Um Ólafsdalsskólann hefir sú ráðstöfun, sem gerð var 1905 haldist; en það var bezti skólinn áður í rauninni og átti að því leyti mestan rétt á sér. Um Eiðaskólann hefir farið á annan veg. Til hans hafði verið varið minstu fé, og hann hafði verið minst sóttur, var í langminstum skuldum, og þar af leiðandi léttast að breyta honum. Með breytingu á þessum 2 skólum í verkl. kenslustofnanir var séð fyrir því, að tillit væri tekið til staðhátta, og mismunandi ásigkomulags í þeirri grein kenslunnar, sem er staðháttum háð. Bókleg kensla er það alls eigi. Hana má framkvæma hvar sem er á landinu jafnt, ef skólarnir eru þægilegir aðsóknar. En það mun nú hafa verið hvorttveggja, að Austfirðingum mun hafa fundist þeir vera sviftir skóla, þótt þaðan útskrifuðust ekki nema 3 menn á ári, og sérstaklega þegar þeim var gert örðugt með að sækja norðlenzka bændaskólann með því að hafa hann á Hólum. Var það fyrsta sporið til að slá villu í þetta skólaplan. En eigi að síður álít eg, að Austlendingar hafi farið rangt að, þegar þeir héldu því til streitu, að halda uppi bóklegum skóla hjá sér, en sætta sig eigi við ráðstöfun alþ. 1905, eins og Vestfirðingar. Þeir áttu að leggjast á þá sveifina, að fá bændaskólann færðan frá Hólum á þann stað, sem beztur var til sóknar fyrir landshelminginn Norður- og Austurland, og að skólinn væri að öðru leyti svo úr garði gerður, að hann tæki á móti sæmil. aðsókn úr þessum landshelmingi. Í þess stað ráðast þeir í þessa stóru byggingu, sem þeim er hurðarás um öxl, í trássi við guð og menn. Eiðaskólinn, sem áður var skuldlaus að mestu, og sæmilega á sig kominn til þess, sem þingið ætlaði honum að vera, er nú kominn í botnlausar skuldir, ekki einungis fyrir þetta nýbygða stóra skólahús upp á 40,000 kr., heldur að auki, eftir því sem mér skildist á hv. þm. Sfjk., (B. Þ.) nál. 7000 kr. skuld fyrir reksturskostnað, sem héruðin ekki gátu staðið straum af. Hann er því mjög nálægt því að vera fjárglæfrafyrirtæki. Og svo eru ekki önnur ráð, en að skella þessu, þegar í skömmina er komið, upp á landssjóð að miklu leyti. Landssjóður virðist og eftir tillögum austfirzku þm. um árskostnað til skólans, að eiga að taka hann upp sem þriðja landsskólann í þessari grein. Að samþykkja þær tillögur þykir hvorki meira né minna. Eg hefi því þá aðstöðu í máli þessu, að eg er á móti hækkuðum ársstyrk til skólans. Þar á móti sé eg eigi önnur ráð, en að hlaupa undir bagga með héruðunum um þennan mikla byggingarkostnað, þó hann sé illa til kominn; því að á það er að líta, að þau geta eigi undir honum risið; en húsið myndarlegt og getur orðið að einhverjum opinberum notum. Eg er því í þessu efni þvert á móti fjárlaganefndinni.

Aftur á móti er eg henni samþykkur um, að fella fjárveiting til skólahúss á Hólum. Það var óhappið, sem ef til vill hefir komið þessum Eiðaskóla-vandræðum á stað, að skólinn var settur þar fastur. Það væri engin furða, þótt mínir héraðsbúar létu til sín heyra í þessum skólamálum. Þeir hafa engan landsskóla hjá sér og kæra sig ekki um það, og sækja þó skóla ekki síður en aðrir. En engin furða er það þó þeim mislíki, að senda börn sín á afskektustu staði, eða í mestu fjarlægð, svo sem bændaefnin að Hólum eða Eiðum og konuefnin að Blönduósi, ef ekki suður í Rvík.