05.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Steingrímur Jónsson:

Eg get ekki stilt mig um, að minnast á eitt af síðari orðunum í ræðu háttv. þm. Gullbr. og Kjósarsýslu. Hann skaut því sem sé til okkar nefndarmanna, að við værum ekki kosnir fyrir neitt kjördæmi. En eftir stjórnarskipun þeirri, sem nú er í gildi, þá höfum við sama atkvæðisrétt og aðrir. Og þykist eg hafa sýnt eins mikla viðleitni á að komast að sannleikanum eins og hann í þessu máli.

Og vil eg benda á, að það er skylda þingmanna að greiða atkvæði samkvæmt samvizku sinni, en ekki vilja kjósenda sinna; það er gott ef það fer saman; en fari það ekki saman, þá er þingmaðurinn að eins skyldur til að fara eftir samvizku sinni. Annars skal eg taka það fram, að eg hygg að flestum eða öllum sé kunnug skoðun mín í þessu máli, svo að eg þarf hér litlu við að bæta. Mönnum er það kunnugt, að eg álít það mikið spor í sjálfstæðisáttina, ef frumvarpið verður að lögum, — og óhapp, sem seint bætist, ef það fellur, eins og sýnilegt er. Breytingartillögur minni hlutans mun eg og geta samþykt, og álít þær til góðs og betur farið að þær séu upp teknar. Það eru ekki nema orðabreytingar, en þær gera þó frumvarpið aðgengilegra, og í sumum atriðum ljósara. — Nokkur atriði skal eg nú og minnast á. Framsögumaður meiri hlutans sagði í ræðu sinni, að Danir hefðu sagt í vetur, að við ættum engan rétt, og að þeir þyrftu ekki að gefa okkur annan rétt en sem þeir vildu skamta. Þessu mótmæli eg, og vísa eg því til sönnunar í athugasemdirnar við frv. Danir viðurkenna víst, að við eigum rétt, þótt þeir viðurkenni ekki gamla sáttmála. — Sami háttv. þm. sagði það og í ræðu sinni, sem einnig var ranglega mælt, að það væri samkvæmt úrskurði þjóðarinnar, að þær breytingar hefðu verið gerðar á frv., sem komu fram í nefndaráliti meiri hlutans. Þetta álít eg rangt. Eg er nógu kunnugur því máli til að geta sagt um það, að á mjög miklum hluta af landinu hafa engar ákveðnar breytingar verið til teknar aðrar en þær, að frumvarpið þyrfti að vera greinilegar orðað á stöku stað. Og býst eg við, að fáa í landinu hefði grunað, að annað eins afskræmi mundi fram koma og það, sem neðri deild samþykti. Það þarf að bera það undir þjóðina aftur, áður en farið er að vitna í þjóðarviljann í því máli. Þm. sagði, að Danir hefðu strax í haust eftir kosningar neitað því, að Ísland væri »suverænt« eftir uppkastinu. Að Danir hafi haldið því fram, mótmæli eg algjörlega. Eg veit sem sé ekki til, að aðrir hafi haldið því fram en einn einasti blaðasnápur, — eg á við dr. Berlin, þótt frekt sé að orði kveðið. Hins vegar kannast eg við, að það er algengt, ef einn blaðasnápur í einhverju landi hefir slegið fram einhverri skoðun, þá er sagt að það sé skoðun þjóðarinnar. Slíkt er svo mikil fásinna, að það nær engri átt. En hins vegar skal eg benda á, að það var auðþekt ættarmarkið á greinum þeim, sem við dr. Berlin eru kendar. Það má sem sé heita, að þær séu nær eingöngu útlegging úr Ísafold. En viðvíkjandi dr. Berlin skal eg taka það fram, að sá maður hefir af öllum mætti lagt sig fram til að koma frumvarpinu fyrir kattarnef, af því að honum þótti það of frjálslynt í garð Íslendinga. Sem kunnugt er, hefir á þetta verið minst í nokkrum hægriblöðum að eins. En ekki veit eg til að einn einasti stjórnmálamaður hafi á það minst nema þessi eini, dr. Berlin. En hvað er komið undir hans skoðun á málinu? Ekki neitt, eða að minsta kosti lítið. Það eru þingmenn Dana, sem hlut geta átt í þessu máli, og alt er undirkomið, en aðrir ekki. Það eru þeirra skoðanir á málinu, sem ráða; og þær koma fram í frumvarpinu.

Eins og háttv. framsögum. meiri hlutans sagði, þá er aðalágreiningurinn um persónusamband og »realunion«. Þetta er rétt að því er meiri hlutann snertir. Minni hlutinn vill »realunion« við Dani, þó við teljum það reyndar ekki þá lífsnauðsyn, sem öll okkar velferð sé undir komin, svo að alt sé á heljarþröminni annars. Það höfum við ekki sagt; við vitum, að við getum vel lifað undir »status quo«. En til þess að lögtryggja okkur frelsi, þá er málefnasamband nauðsynlegt. — Annars eru sýnilega að eins tveir vegir fyrir oss til sjálfstæðis: »realunion« eða skilnaður. Hvers vegna? Af því allir vita, að persónusamband er ómögulegt, óhugsanlegt fyrirkomulag. Það er eins og skuggi liðinna tíma, sem gengur nú ljósum logum fyrir ímyndun háttv. frumvarpsandstæðinga.

Og hvers vegna eru að eins 2 leiðir til í máli þessu? Vegna þess, að persónusamband er alveg ósamrýmanlegt við þingbundna konungsstjórn. Það getur hver sem vill sannfærst um af sögu síðari alda. Það er alveg óhætt að fullyrða, að það er alveg óhugsandi, að Danmörk og Ísland geti haft konunginn einan sameiginlegan og ekkert annað, enda var það ljóst öllum 20 mönnunum, er í millilandanefndinni sátu, þegar eftir fyrstu fundina. Danir gátu ekki teygt sig lengra en þeir gerðu í uppkastinu, og þá var annað hvort að taka því eða fara fram á skilnað, en nefndarmennirnir íslenzku höfðu ekkert umboð til þess að semja um skilnað, enda hafa forsetarnir nú í utanförinni lýst því yfir, að hér á landi væru sárfáir skilnaðarmenn. Hinn háttv. framsögumaður meiri hlutans sagði, að það væri ekki svo ýkja mikið, sem okkur og þeim bæri í milli. Það væri að eins um 2 mál, utanríkismál og hervarnir, sem deilan stæði, hvort þau skyldu vera uppsegjanleg eftir ákveðinn tíma eða ekki; — það hefði nú þá verið réttara að segja, að það væri ekki nema l½, því að vér höfum áhrif á alla samninga, er Danmörk gerir við erlend ríki, ef þeir snerta oss sérstaklega. Þetta geta þeir einir látið sér um munn fara, sem ekkert gera úr pólitísku sjálfstæði; ef vér höfum ekkert að gera við utanríkismál, og ef vér höfum engar hervarnir, þá eru það sannarlega smámunir einir, sem í milli bera, en það er að eins skoðun þeirra manna, er álíta »status quo« beztan. Meiri hlutinn gerir kröfur, sem eru ófáanlegar, en það er aftur á móti fáanlegt, sem minni hlutinn fer fram á, og munurinn sá einn, eftir því sem háttv. framsögumaður meiri hlutans komst að orði, að eftir tillögum minni hlutans verður ekki til tekinn neinn ákveðinn uppsagnarfrestur, að því er 1½ mál snertir. Hinn háttv. framsögum. meiri hlutans sagði, að breytingartillögur minni hlutans væru ekki fáanlegar, en fyrverandi ráðherra hefir lýst hinu gagnstæða yfir í neðri deild, og það er fyrir þá sök eina, að vér erum í minni hluta, að vér getum ekki skjallega sannað, að svo sé, en reyndar getur hver sem vill séð það af »bláu bókinni«, því að hún sýnir, að þetta eru orðabreytingar einar, og Danir hafa að eins lýst því yfir, að allar verulegar efnisbreytingar væru ófáanlegar, en jafnvel sjálfur prófessor Matzen er alls ekki mótfallinn orðabreytingum. Menn segja, að það komi í bága við það, sem Neergaard hefir sagt forsetunum, en það er ekki. Neergaard lýsti því að eins yfir, að efnisbreytingar væru ófáanlegar, en forsetarnir gerðu sig seka í þeirri ófyrirgefanlegu gleymsku, að spyrja ekki forsætisráðherrann að því, hvað hann áliti efnisbreytingar og hvað að eins formbreytingar, og í hans augum eru þetta ekki efnisbreytingar, enda þótt meiri hlutinn hér á þingi líti svo á. Hinn háttv. þm. Strandamanna sagði, að vér gætum fyrst vitað, hvar vér stæðum í þessu máli, þegar frv. meiri hlutans hefði verið samþykt af alþingi og Danir tekið afstöðu til þess. En þetta er ekki rétt. Frv. meiri hlutans fer fram á hreint persónusamband að 25 árum liðnum, en bæði eg og aðrir minni hluta menn hér og í neðri deild hafa leitt rök að því, að Danir ganga aldrei að persónusambandi, þeim er það blátt áfram ómögulegt. Það hlýtur því að vera öllum ljóst, að það er að eins gert til málamynda, að vera að samþykkja þetta frumvarp, og senda ráðherra með það á fund Dana, því að það getur engan árangur haft. Þá sagði sami háttv. þm., að millilandanefndarmennirnir íslenzku hefðu að eins gert það til málamynda, að halda fram fullum kröfum Íslendinga, því að þeir hefðu slegið af, er á átti að herða. Mér þótti vænt um, að hinn háttv. þm. Gullbringu- og Kjósarsýslu mótmælti þessu. Annars sýnir þetta, að hinn háttv. þm. Strandamanna ekki hefir kynt sér málið og umræðurnar um það sem skyldi, því að hann ruglar hér saman samningsgrundvellinum og sjálfum samningnum. Það var samningsgrundvöllur, sem vér settum fram 16. marz, og honum héldum vér og höldum enn, þótt vér gengjum að uppkastinu.

Háttv. þm. Strandamanna og háttv. þm. Gullbringu- og Kjósarsýslu töluðu mikið um innlimun. Út af því vildi eg benda á, að þetta orð, innlimun, er í íslenzkri pólitík að eins notað sem ókvæðisorð, er hljómar sérstaklega einkennilega og fávíslega, er það kemur frá mönnum, sem búa við stöðulögin frá 1871. Það er óhyggilegt af þeim mönnum, að vera að kalla okkur hina, sem komast viljum úr stöðulagainnlimuninni, innlimunarmenn. Háttv. þm. Gullbringu- og Kjósarsýslu sagði, að hervarnir væru stórmál, en eftir frv. neðri deildar skilst mér helzt, að þær séu ekkert mál, því að þær eru alveg strikaðar út. Sami háttv. þm. sagði, að það væri óforsvaranlegt, að hespa þetta stórmál af á einu ári. Veit hann þá ekki, að að þessu máli hefir verið unnið af beztu mönnum hinnar íslenzku þjóðar í 2 mannsaldra, og að Jón Sigurðsson helgaði því alt sitt æfistarf. Enn sagði sami háttv. þm., að minni hlutinn hefði sagt, að mál þetta hefði verið gert að æsingamáli, en það væri ekki rétt. Hann gleymdi að geta þess, sá góði maður, að mál þetta var notað til þess að steypa hinni fyrverandi stjórn, og að meiri hlutinn ekkert annað mál hafði til þess. Það þarf ekki annað en að lesa vantraustsyfirlýsinguna frá 23. febrúar, og kynna sér sögu þingsins til þessa dags, til þess að sjá, að eg fer hér með rétt mál. Eg vona, að það hafi verið mismæli, þar sem hinn háttv. þm. Gullbringu- og Kjósarsýslu sagði, að dr. Knud Berlin hefði skrifað frumvarpið, því að slíkt getur engum til hugar komið, sem lesið hefir frumvarpið.

Skal eg svo víkja að breytingum þeim, sem meiri hlutinn hefir gert á frv. millilandanefndarinnar. Í 1. gr. hefir orðið »fullvalda« verið sett í stað orðsins »sjálfstætt«. Það er að eins lítilfjörleg orðabreyting, sem þó ekki er til bóta, því að orðið »sjálfstætt« á heima í lagatexta, en orðið »fullvalda« miklu síður. Það orð á miklu frekar heima í vísindaritum, enda eru það helzt þau ríki, sem ekki eru »suveræn«, sem taka það upp í stjórnarskrá sína. 2. gr. er í aðalatriðunum eins og í uppkasti millilandanefndarinnar, að hér á landi skuli, í þeim efnum, sem þar um ræðir, gilda sama skipun, sem í Danmörku, en þó hafa tvær klausur verið feldar burt, önnur um rétt konungs til að hafa stjórn á hendi í öðrum löndum, en hin um það, hvernig fara skuli að, þá er konungdómurinn er laus og enginn ríkisarfi. Nú er mér spurn, hvaða reglur eiga þá að gilda um þetta efni? Samkvæmt 7. gr. á konungssambandið að vera óuppsegjanlegt um aldur og æfi, en af því hlýtur, að sama skipun verður að gilda í báðum löndum um þessi atriði, og úr því hún er ekki ákveðin í sambandslögunum, verður það gert með einhliða dönskum lögum — eða með öðrum orðum, Danir verða alveg einráðir í þessu efni án þess vér eigum þar um nokkurt atkvæði.

Á 3. gr. hafa verið gerðar 3 aðalbreytingar, sambandsmálunum verið fækkað úr 8 niður í 5. Hervörnunum er slept. En með því er fyrst og fremst slept rétti sem vér höfum gagnvart Dönum til þess að heimta af þeim að þeir verji okkur, og það er mikilsverður réttur, því að sjálfstætt ríki verður að hafa hervarnir, það er hreint og beint »humbug«, að vera að tala um sjálfstæði, og ætla sér engar hervarnir að hafa. Vér skulum allra snöggvast hugsa okkur að frumv., eins og það nú liggur fyrir, væri orðið að lögum. Afleiðingin af því að þar er ekkert minst á hervarnir yrði sú, að erlend ríki heimtuðu, að Ísland annaðhvort yrði skoðað sem ónumið land, er hver mætti hirða sem vildi, eða að Danir tækju að sér hervarnirnar fyrir okkur, og þá yrðu þær auðvitað aldanskt mál, sem vér hefðum engin áhrif á eða umráð yfir. Þá hefir fæðingjarétturinn verið feldur burt úr tölu sameiginlegu málanna. Í því ákvæði í uppkasti millilandanefndarinnar lá fyrst og fremst það, að vér gátum veitt útlendingum innfæddra rétt, er líka gilti í Danmörku, og í annan stað, að vér höfðum rétt innborinna manna í Danmörku, og af því hefðum vér mest gagnið, því að það er vitanlegt, að vér höfum miklu meira að sækja til Dana en þeir til okkar. Auk þess má benda á, að fæðingjarétturinn er þess meira virði, sem þjóðin, er hann gildir hjá, er fjölmennari, og að hann verður fyrst verulega dýrmætur, þegar menn komast í ógöngur fjarri heimkynnum sínum. Þá vill meiri hlutinn ekki hafa fánann út á við sameiginlegan. En hvernig hefir hann hugsað sér að koma því í kring, að Ísland geti strax fengið sérstakan kaupfána, er sigla megi með um öll höf? Og hvernig ætlar hann að fara að því að fá þann fána viðurkendan? — Þá hefir 4. gr. uppkastsins verið feld burt með öllu. Mér er það nú alveg óskiljanlegt, hvers vegna þessi grein ekki mátti standa, því að hún hefir þó að minsta kosti hvorki í sér fólgna innlimun né réttindaafsal. Þessi grein tekur til sérmála, er snerta bæði löndin; yfir slíkum málum hafa Danir viljað ráða hingað til, þótt um íslenzk sérmál væri að ræða, og þess vegna var full ástæða til að slá því föstu, að Danir gætu enga ákvörðun tekið um slík mál, nema með fullu samþykki íslenzkra stjórnarvalda. Breytingar þær, er gerðar hafa verið á 5. gr., fara ekki jafn langt, sem kröfurnar í sumar. Nú er ekki lengur ráðist á jafnréttið; því er slegið föstu alveg á sama hátt í frumvarpi meiri hlutans sem í uppkasti millilandanefndarinnar. Þá hefir klausan um að Íslendingar skyldu vera undanþegnir herþjónustuskyldu verið feld burt. Hún var sett í uppkastið vegna þess, að það er bygt á einhverju gömlu konungsbréfi, að Íslendingar skuli ekki vera útboðsskyldir, og það var hugsanlegt, að Danir næmu það bréf úr gildi, og þröngvuðu oss svo til að ganga í herþjónustu. En fyrir það var loku skotið með því að taka ákvæðið um þessa undanþágu beinlínis upp í sambandslögin.

Þá hefir 6. gr. verið breytt að orðalagi, en ekki þó til bóta. Í því efni vil eg benda á tvær villur, sem haldið var fram í »agitationinni« hér í sumar sem leið, nefnilega, að með frumvarpi stjórnarinnar afsöluðum við Dönum utanríkismál og hermál, og það um aldur og æfi. Fyrst og fremst stendur »um aldur og æfi« hvergi í frumv., enda er það löngu úr tízku að gera slíka samninga um aldur og æfi. Sá rétti skilningur er einmitt, að við felum Dönum meðferð þessara mála »meðan um semur«; og að við því erum með frumv. viðurkendir jafnréttháir aðilar. Að öðru leyti er hér alls eigi um afsal að ræða, og sést það ljóslega af 6. og 7. gr. bornum saman; samkvæmt þeim eigum við heimting á að fá hlutdeild í meðferð þessara mála; ef við að eins förum fram á sanngjarnar kröfur, þá geta Danir ekki neitað þeim, án þess að brjóta rétt á okkur, og þá stöndum við miklu betur að vígi með að gera uppreisn en nú. — Þá hefir 8. gr. verið feld í burtu. Það er mér gjörsamlega óskiljanlegur hugsunarháttur. Eg hefði getað skilið, að greininni hefði verið breytt á þá leið, að oddamaðurinn skyldi vera norskur eða íslenzkur, en að menn skuli vilja láta hnefaréttinn ráða, þegar ágreiningur rís milli okkar og Dana, það leiði eg minn hest frá að skilja. — Aðalbreytingin sem Nd. hefir gert á frumvarpinu er við 9. gr. þess. Í stað þess, að í frumv. stjórnarinnar voru ekki öll málin uppsegjanleg, og þau sem það voru, að eins eftir »revision«, þá eru í frumv., eins og það kemur frá Nd., öll málin uppsegjanleg og sama sem bönnuð öll »revision«. Þetta eru auðvitað mjög aðgengilegir kostir fyrir Dani, því þeim er alveg sama þó við getum sagt sambandinu upp, en slíkt ákvæði er stórháskalegt fyrir okkur. Það gæti komið okkur mjög illa, ef Danir segðu einn góðan veðurdag við okkur, að nú yrðum við að vera búnir að koma okkur fyrir innan árs, af því að þeir vildu ekki hafa neitt með okkur að gera lengur. Þetta ákvæði, að Danir geti sagt sambandinu upp með svo skömmum fyrirvara, er sá háski, sem við eigum að forðast eins og heitan eldinn. Yfirleitt verðum við að búa svo um hnútana, að það verðum við, sem segjum upp, en ekki þeir, og þess vegna verðum við að koma okkur vel við þá. Sumir kunna að segja, að fyrir það sé girt, að Danir geti sagt sambandinu upp, með því að konungssambandið sé óuppsegjanlegt. En það er ekki rétt. Danir geta vel bannað sínum konungi að vera jafnframt konungur í öðru landi, og þeir mundu gera það, ef sambandinu um hermál og utanríkismál væri sagt upp frá okkar hlið, því þeir hafa ávalt haldið því fast fram, að hreint konungssamband kæmi ekki til mála, enda væri slíkt samband að eins skuggi af sambandi, er gæti enga verulega þýðingu haft. Enda er það líka eðlilegast, að þessi tvö mál séu sameiginleg með okkur og Dönum. Það er í samræmi við þá framtíðarhugsjón, sem allir Norðurlandabúar hljóta að óska, að komist í framkvæmd innan skamms, nefnilega, að öll hermála- og utanríkismálastjórn allra Norðurlanda verði sameiginleg; á því einu er hægt að byggja von um það, að sjálfstæð menning þessara landa geti staðist til lengdar.

Eg er því mótfallinn öllum breytingum Nd. við frumv., en samt ætla eg ekki að greiða atkvæði á móti þeim, af því eg lít svo á, að þetta frumv. meiri hlutans sé tómur leikaraskapur, tóm uppgerð. Í niðurlagi nefndarálits meiri hlutans hér í deildinni segir, að meiri hlutinn treysti því, að bræðraþjóð vorri muni óðum vaxa svo þekking og skilningur á rétti þessarar þjóðar til að njóta óskoraðs fullveldis yfir öllum sínum málum, að hún, er stundir liða fram, muni reynast fúsari til að verða við öllum réttmætum kröfum vorum, en hingað til hefir raun á orðið, og af því sem stendur framar í álitinu, er augljóst, að þeir með þessu meina, að Danir muni fást til að ganga inn á hreint persónusamband. Þetta er annaðhvort sprottið af fávizku, eða þá að það er tómur leikaraskapur, og um slíkt vil eg ekki greiða atkvæði, hvorki með né móti.