24.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (2677)

96. mál, þjóðmenjasafn Íslands

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) var að tala um það, að sagt hefði verið, að landsskjalasafnið væri ekki til annars en að bera það út á tjörn og kveikja í því »fyrir fólkið«, sagði raunar, að það mundi vera nokkuð ýkt. Eg verð að álíta, að háttv. þm. hafi ekki kynt sér safnið, annars mundi hann ekki hafa látið sér þessi orð um munn fara. Mig furðar á því vegna þess, að eg veit að háttv. þm. ann svo landi sínu og þjóð að hann vill ekki stuðla til þess, að loka þessum fróðleiks uppsprettulindum þjóðarinnar. Get hugsað mér, að það sé margt, sem dregur menn að söfnunum, meðal annars það, að þar er margt, sem hvergi er annarsstaðar að finna.

En það sem einkum kom mér til að standa upp í þessu máli, er það, að með lögum frá 16. nóv. 1907 er fornmenjaverði gert að skyldu að vera fjarverandi einmitt þann tíma ársins, sem mest er aðsóknin að safninu, og það munu fáir staðir hér í þessum bæ vera jafn-mikið sóttir og það, og að ætla að loka því um þann tímann, sem aðsóknin er mest, bæði af útlendum og innlendum mönnum, finst mér með öllu ógerningur. Ef hinn háttv. 2. þingm. Árn. (S. S.) vildi gera sér það ómak að ganga upp í safnhúsið, og líta á húsrúm það sem safnið hefir, þá mun hann sannfærast um það, að það eru engar ýkjur, að með minna en 4—5 manna umsjón, þá daga sem safnið er opið, verður safnið horfið burt, ekki á 4—5 árum, heldur á 2—3 árum, og að fornmenjavörður hafi svo rífleg laun, að hann geti borgað þá aðstoð, sem þarf til þess, að halda safninu opnu, finst mér ekki geta verið nokkrum vafa undirorpið.

Trúi því ekki fyr en eg má til, að mál þetta verði felt, en finst hins vegar rétt að kjósa nefnd í málið.