11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

96. mál, þjóðmenjasafn Íslands

Framsögumaður minni hlutans (Hálfdan Guðjónsson):

Eins og háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) tók fram, gátum við ekki orðið sammála í nefndinni og þótt nefndarálit minni hlutans sé stutt, hygg eg þar þó teknar fram með allgildum rökum ástæður þær, sem eg tel á móti frumv: Annars hef eg ekki verið og verð aldrei með því að stofna ný og ný embætti, nema sérstakar ástæður knýi til þess, og enda þótt eg viðurkenni, að oss beri að sýna safni þessu og öðrum fornmenjum meiri rækt og athygli en oft hefir átt sér stað, þá getur þó svo farið, að vér fáum það of dýru verði keypt, að þessi fjárframlög verði of þung á fjárlögunum, og það er sannarlega meira en til þessa safns, sem gengur til fornmenja. Þannig er styrkur veittur til útgáfu Árbókar Fornleifafélagsins. Og undir þetta má að nokkru leyti heimfæra styrkinn til Brynjólfs á Minnanúpi til fornmenjarannsókna, og svo bætist við þessi nýja launaviðbót. Alt þetta gerir ekki svo lítið á fjárlögunum. Eg er líka á móti þessari launauppbót, þegar af þeirri ástæðu, að eg álít, að hún geri hvorki heilt né hálft. Eftir því sem sjálfur flutningsmaður þessa frumv. lét í ljós við 1. umr., verður ekki hægt að hafa nægilega gát á safninu fyrir það. Það kemur því ekki að tilætluðum notum, nær ekki tilgangi sínum. Eftir hans eigin dómi er mesta hætta á að gestirnir beri safnið burt í vösum sínum, þegar gæzlan ekki er meiri né betri. Betra ráð væri þá að breyta þessari gæzlu með því að loka t. d. niður þá muni, sem lauslegastir væru, svo að gestirnir gætu ekki hlaupið burt með þá í vösunum. Það væri líka ráð að stúka salnum í sundur og gæti vörðurinn þá haft með sér ákveðna tölu gesta og fylgt þeim frá einu herberginu í annað. Eg fæ því eigi séð, að nein nauðsyn sé á þessari fjárveitingu, enda lít eg svo á, að stjórnin hefði þá lagt til, að fá fé þetta veitt í fjárlögunum.