16.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (2695)

63. mál, gagnfræðaskólinn á Akureyri

Stefán Stefánsson (6. kgk. þm.):

Eg bjóst ekki við, að frumv. fengi slíkar viðtökur frá neinum hinna háttv. deildarmanna. En eg vona, að þessi rödd sé nokkuð einstæð og hjáróma; eg vona að það séu ekki margir, sem bera slíkan hug til frumvarpsins eins og háttv. þm. V.-Sk. Í ræðu hans voru ýmsar hnútur til mín persónulega, en þær læt eg mig engu skifta, því að það er gagnslaust að vera að munnhöggvast um slíkt á þingi. — Háttv. þm. fylgdist ekki með í stundatölureikningi mínum. Eg benti á, að það er nú svo ástatt í skólanum, að það vantar alveg einn fullkominn kennara, þó að aðsóknin sé ekki meiri en svo, að 3 bekkir óskiftir nægi, eins og nú er. Kenslustundirnar eru 108 á viku.

Háttv. þm. reyndi ekki að hrekja það, sem er aðal atriðið í þessu máli, að það er hollara að hafa fastan kennara, heldur en að verða að nota tímakennara. En hitt reyndi hann að hrekja, að það væri skortur á kennurum við skólann, úr því einn kennarinn getur verið burtu hálft árið. Það er nú nokkuð liðugt krítað, að eg sé hálft skólaárið burtu. En hvað sem því líður, er ekkert á því að byggja, þó að eg hafi í þetta sinn verið svo heppinn, að geta fengið hæfan mann til þess að gegna kenslustörfum í minn stað, auðvitað upp á minn eigin kostnað. Það vildi svo til núna, að eg gat fengið mann, sem kom frá Kaupmannahafnarháskóla, en það stendur ekki altaf svo á. Þessi ástæða er því einkis virði. — Eg gat þess, að aðsókn að skólanum er svo mikil, að nú eru nemendurnir 94, eða 10 fram yfir nemendafjölda í almennna mentaskólanum. Eiga þessir menn að vera svo afskiftir, að fá miklu lakari kenslu en þeir, sem hér ganga í skóla? Því að með svo litlum kenslukröftum sem nú eru þar, er með engu móti unt að kenslan geti verið samsvarandi og við hinn almenna mentaskóla, sem bæði hefir fleiri kennara og stendur miklu betur að vígi til þess að fá góða tímakennara.

Akureyrarskólann sækja piltar af Norður- og Austurlandi og víðar að, — nú hafa sótt þangað 2 piltar úr Skaftafellssýslu. Og eg get ekki hugsað, að háttv þm. V. Sk. vilji leggja það til, að þessir menn beri ekki sama frá borði, eins og þeir sem ganga á skóla hér. Hann veit þó, að Akureyrarskólinn á að samsvara neðri deild hins almenna mentaskóla, og nemendurnir eiga því heimting á að fá nokkurn veginn eins góða kenslu. En það geta þeir ekki eins og nú er, vegna of lítilla kenslu krafta.

Háttv. þm. gerði líka of mikið úr útgjaldaaukanum, sem frumv. hefði í för með sér. Því að nokkuð af þeim kostnaðarauka sparast aftur við það, að kostnaður til tímakenslu hlýtur að minka að sama skapi, sem föstum kennurum er fjölgað. Nú eru borgaðar 800 kr. hverjum fullkomnum tímakennara, og á fjárlögunum eru ætlaðar 2500 kr. samtals til tímakenslu. Ef aðsókn að skólanum eykst, hlýtur sá kostnaður að verða yfir 3000 kr., en minkar aftur á móti ef föstum kennara verður bætt við.