16.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (2697)

63. mál, gagnfræðaskólinn á Akureyri

Stefán Stefánsson (6. kgk. þm.):

Eg er þakklátur háttv. 2. þm. G.-K. fyrir það, hve vel hann tekur málinu, og sömuleiðis fyrir athugasemdir hans, sem flestar voru á rökum bygðar. Eg ætla aðeins að minnast á þá athugasemd hans, sem laut að 4. gr. laganna, um gagnfræðaskóla á Akureyri, 10. nóv. 1903. Það er misskilningur, að heimavistarskyldan í skólanum sé fallin niður, þó að þessi grein sé úr gildi feld með frumvarpinu. Það er fjarri mér að vilja leggja niður heimavistirnar, því að eg barðist einmitt fyrir því áþinginu 1903, að heimavistir yrðu hafðar, og sem flestar. Eg leit svo á, að ákvæðið þyrfti að vera í lögunum sem skólastofnunarlögum. En nú er alt öðru máli að gegna; nú er ákvæðið í reglugjörð skólans og stendur þar áfram óhaggað. Eg hélt því að ákvæðið í lögunum væri óþarft héðan af. En verði það álitið heppilegra, að láta það standa, þá hefi eg náttúrlega ekkert á móti því.

Hvað snertir það að sumarfríið er lengra við Akureyrarskóla en hér, þá hefi eg einmitt haft það í huga, og þessvegna ekki farið fram á eins há laun, eins og kennarar hafa við hinn alm. mentaskóla. En hitt get eg ekki fallist á, að sá kennari, sem hefir lengra sumarfrí, sé þar fyrir færari um að hafa fleiri kenslustundir, á meðan skólinn stendur, og víst er um það, að við marga skóla erlendis er beint bannað að nokkur kennari kenni meir en 4 tíma á dag. Það vinst heldur ekkert við að hafa tímana fleiri, því að kenslan hlýtur um leið að verða verri, þreyttur maður getur ekki kent eins vel og óþreyttur. Eg segi fyrir mig, að eg get ekki kent með fullu fjöri lengur en 4 tíma á dag, og er eg þó orðinn all æfður.

Eg gleymdi áðan að gera athugasemd við eitt atriði í ræðu háttv. þm. V.-Sk. Hann talaði um að eg hefði viljað hafa af landsjóði tekjuauka, sem hann átti heimting á. Eg get ekki haft vægari orð um þetta, en að lýsa það hrein ósannindi. Ef átt er við tollaukafrumvarpið eða breytingartillöguna um það, að leggja tollaukann á vörubirgðir, þá er ómögulegt að segja að landsjóður eigi heimting á slíkum tekjuauka, sem stríðir á móti fullum rétti einstakra manna. — Eg ætla ekki að orðlengja um þetta frekar, en eg verð aðeins að neita því, að eg hafi nokkurntíma viljað hafa fé af landsjóði. — Þetta frumv. kem eg með í þeim tilgangi, að landið græði mikið, en tapi engu.