02.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Framsögum. (Jósef Björnsson):

Nefndin hefir komið með breyt.till.. við 1. og 7. gr., og gerir hún það til samkomulags við þá, er andmæltu frv. við 2. umr.

Aðalbreytingin á 1 gr. er sú, að ekki er útilokað með öllu að rífa lyng og hrís. Verður frv. við þá breytingu vægara en stjórnarfrv. Frá mínu sjónarmiði er það ekki beint til bóta, því að hrís- og lyngrif hefir valdið uppblæstri. Eg skal játa það, að sé um ræktað land að ræða, er ástæða til að kippa upp runnum og rótum. Annars er það til skaða. En nefndin hefir samt til samkomulags gengið svo langt, að ekki sé bannað að kippa upp runnum og rótum nema í skógum og kjörrum. Ef til vill gæti verið misjafnt hvað menn kalla skóg og kjarr, en líklega verður það þó ekki misbrúkað.

Breytingin, að »skógræktarstjóra sé heimilt að banna«, frá því er í frv. stendur, að ekki megi rífa fjalldrapa og víði, gengur líka í þá átt að gera frv. vægara, því víða mundi skógræktarstjóri ekki ná til að banna þetta.

Eins og eg þegar hefi tekið fram, hefir nefndin gert þessar breytingar til samkomulags við andmælendur í deildinni. Henni hefir og borist ávæningur um, að frv. myndi ekki eiga góðum viðtökum að fagna í Nd., ef ákvæði þess væru ströng. En nefndin telur mjög illa farið, ef frv. fær ekki fram að ganga, og vill heldur að ákvæði þess séu væg en það falli. Þá er nefndin og þeirrar skoðunar, að of ströng ákvæði mundu ef til vill leiða til þess, að lögunum yrði ekki hlýtt.

Um breyt.till. við 7. gr. skal þess getið, að nefndin áleit ákvæðin um tímatakmörkin ekki nauðsynleg, og ræður því til að fella burtu setninguna: »Á Vestfjörðum« o. s. frv. Orðið »einkum« leggur nefndin líka til að sé felt úr greininni.

Þá skal eg minnast á breyt.till., sem hafa komið fram frá þm. Ísafjarðar og 1. þm. Gullbr.- og Kjósarsýslu. Breyt.till. frá þm. Ísafjarðar er óþörf, þar eð nefndin hefir farið lengra. En nefndin er algerlega mótfallin breyttill. 2. þm. Gullbr.- og Kjósarsýslu; það væri kipt fótum undan ákvæðunum í síðari hluta greinarinnar, ef orð þau féllu burtu, er háttv. þm. vill sleppa.